Breskt par segir að draumafríið þeirra á Íslandi hafi breyst í martröð er vegabréfum þeirra, peningum, kreditkortum, iPad, bíllyklum og flugmiðum var stolið.
York Press greinir frá málinu. Þar segir að Rob og Nadine Temple, frá Kirkbymoorside, hafi verið að bíða í anddyri hótels snemma morguns eftir rútu út á flugvöll. Að hafi komið maður sem greip tösku þeirra þar sem þau geymdu sína persónulegu muni. Þau segjasta hafa skilið töskuna eftir í stutta stund.
Rob, 30 ára, er vélvirki og segir að breska sendiráðið hafi ekki getað hjálpað þeim að fá tímabundin vegabréf án peninga og að þau hafi einnig ekki komist í flug sitt.
Hann segir að þau hafi hringt í móður hans í Kirkbymoorside, sem sendi þeim rafrænt peninga í íslenskan banka. Þau þurftu að bíða þar til bankinn opnaði en þá tók ekki betra við. Til að taka út peninginn þurftu þau skilríki - en þeim hafði einnig verið stolið.
Þau segjast loks hafa komist að því að þau voru stödd í vitlausum banka. Þau hafi loks náð peningunum út og gátu þar með fengið tímabundin vegabréf hjá sendiráði sínu.
Rob segir að hann og Nadine hafi komist til Bretlands 18 tímum síðar en þó til London en ekki Manchester, þar sem bíll þeirra var.
Er þau komu heim höfðu þau samband við tryggingafélagið Vergin Money til að fá bætur samkvæmt þeirri tryggingu sem þau keyptu fyrir ferðalagið.
En Virgin hafnaði kröfu þeirra á þeirri forsendu að þau hafi ekki haft auga á farangri sínum - þau hafi verið að horfa út um gluggann.
Ron telur þetta óréttlátt. Hann er þó þakklátur vinum og fjölskyldu fyrir að bjarga þeim úr ógöngunum.