Sakar Magnús um „hattalógík“

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína.

„Það er ekki öll vitleysan eins. Hún breytist greinilega eftir því hvort menn eru með hatt yfirlögfræðings ASÍ eða varaþingmanns á kolli sér. Á Mýrunum í gamla daga var það stundum kallað hundalógík þegar menn flæktu sig í eigin rökfimi. Hattalógík mætti líklega kalla þetta.“

Þetta segir Össur Skarphéðinsson á heimasíðu sinni í dag þar sem hann svarar gagnrýni Magnúsar Norðdahls, lögfræðings Alþýðusambands Íslands og varaþingmanns Samfylkingarinnar, á fríverslunarsamninginn á milli Íslands og Kína sem undirritaður var á dögunum.

„Ég skammast mín fyrir flokkinn minn, Samfylkinguna því í dag undirritaði fyrrverandi formaður og utanríkisráðherra með velvild fyrrverandi formanns og forsætisráðherra, fríverslunarsamning við Kína, stærsta alræðisríki veraldar sem gefur „blaff“ fyrir mannréttindi almennings, launafólks og frjálsra samtaka launafólks,“ sagði Magnús á Facebook-síðu sinni í 16. apríl síðastliðinn.

Össur segir að Magnús hafi sem varaþingmaður greitt atkvæði með fríverslunarsamningi við Flóaráðið, sem er bandalag ríkja við Persaflóa, í vetur þrátt fyrir að hafa gagnrýnt samninginn á þingi fyrir það að ekki væru gerðar eins ríkar kröfur til þess um að virða mannréttindi og í tilfelli fríverslunarsamningsins við Kína.

„Samt leggst hann gegn Kínasamningnum af þeirri ástæðu að hann sé svo vondur varðandi mannréttindi!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert