Félagar í þríþrautarfélaginu 3SH lentu í óskemmtilegu atviki á æfingu í morgun þar sem þau hjóluðu í skipulagðri halarófu út á Álftanes. Leið þeirra lá um Herjólfsgötuna, en þar gerðist atvikið. Gísli Ásgeirsson, einn hjólreiðamannanna, greindi frá atvikinu á bloggsíðu sinni í dag.
„Þjálfari hópsins fer fyrir halarófunni og gefur viðeigandi bendingar,“ segir Gísli. Þær nota hjólreiðamennirnir til að sýna greinilega hvert leiðin liggur, en að sögn Gísla gilda ákveðnar reglur þegar hjólað er í lest sem þessari. Hjólreiðamennirnir voru allir í skærum jökkum eða vestum til að vera sýnilegir öðrum vegfarendum. Eftir Herjólfsgötunni hjóluðu þau á 20 til 25 kílómetra hraða, en leyfilegur hraði í götunni er 30 kílómetrar.
Þegar hópurinn hjólaði áfram eftir götunni sáu þau tilsýndar mann í bifreið. Hann lítur í átt að hópnum og býr sig undir að keyra út úr stæði. „Hann hefði getað beðið þessar 15-30 sekúndur meðan við vorum að bruna framhjá honum,“ segir Gísli. „Hann gaf ekki stefnuljós, stakk vinstra framhorni bifreiðarinnar út fyrir stæðið, bremsaði, færði sig örlítið lengra og bremsaði aftur, meðan hjólað var framhjá.“
Ökumaðurinn lét ekki þar við sitja heldur ákvað loks að keyra inn í hópinn. „Hann hafði þar að auki hugsað sér að taka 180 gráðu beygju í leiðinni,“ segir Gísli. Þessu átti enginn von á og nauðhemlaði fólkið sitt á hvað. Bifreiðin lenti á þeim sem næstur var og féll hann harkalega í götuna. „Það var ekkert sem kom í veg fyrir að hann sæi okkur, þess vegna kom þetta á óvart,“ segir Gísli.
Við þetta var hjólreiðafólkinu nóg boðið. „Það sendi honum tóninn en hann reif stólpakjaft og amaðist einkum að „helvítis hjólafólkinu“ sem ætti ekkert erindi út á götur og ætti ekki að þvælast fyrir umferð,“ segir Gísli.
Lögreglan var kvödd á vettvang og tók skýrslu af manninum. Um hádegi í dag fékk hjólreiðamaðurinn sem datt í götuna símtal frá lögreglunni þar sem honum var kynntur réttur hans sem sakbornings. Gísli segir að ekki hafi verið annað að skilja af símtalinu en bílstjórinn hafi kært hinn fallna fyrir gáleysi á reiðhjóli.
„Þetta hefði getað farið mjög illa,“ sagði Gísli í samtali við mbl.is. Hjólreiðamennirnir eru í smelluskóm sem fastir eru á pedalana og því tekur það þá nokkrar sekúndur að leysa sig. Í tilviki sem þessu vinnst þó ekki tími til þess og verður fallið á malbikið mun þyngra.
Gísli tekur fram að langflestir ökumenn taki tillit til hjólreiðamanna. Þríþrautarfélagarnir þurfi að æfa sig eins og aðrir íþróttamenn og leiti allra leiða til að vera ekki fyrir öðrum. Þeir æfa helst á morgnana þegar lítil umferð. Staðir líkt og Álftanes, Krísuvík og iðnaðarhverfi á Völlunum í Hafnarfirði henti vel árla morguns þegar afar lítil umferð er. „Við förum til dæmis aldrei út á stofnbrautir,“ segir Gísli.