„Það er útlit fyrir að báðar þyrlurnar verði klárar seinni partinn í vikunni,“ sagði Ásgrímur Ásgrímsson hjá Landhelgisgæslunni spurður að því hvenær búast mætti við að þyrlurnar TF-LIF og TF-GNA yrðu tilbúnar til notkunar á ný.
TF-LIF hefur verið í reglubundinni skoðun. Þeirri skoðun var flýtt sem kostur var eftir að TF-GNA var nauðlent við bæinn Kvísker í Öræfum 25. apríl síðastliðinn.
„Það sem ég heyrði á flugvirkjanum í dag var að bilunin væri ekki eins mikil og talið var og ekki eins mikið sem hafi þurft að skipta um. Þeir varahlutir sem vantaði yrðu komnir til landsins í vikunni,“ sagði Ásgrímur um viðgerðina á TF-GNA, en nauðlendingin var vegna bilunar í gírkassa þyrlunnar.