Fulltrúar þriggja fyrirtækja í ferðaþjónustu skora á stjórnvöld að gera Kjalveg að boðlegri ökuleið fyrir ferðamenn. Segja þeir það skjóta skökku við að bjóða ferðamönnum upp á veg sem 75 þúsund manns nota á ári sem ekki sé almennilega fær. Ekki einu sinni yfir hásumarið.
Þeir Herbert Hauksson hjá Fjallamönnum ehf, Gunnar Guðjónsson f.h. Hveravallafélagsins ehf, og Páll Gíslason hjá Fannborg ehf, standa að baki áskoruninni.
Herbert segir að vegurinn sé einungis fær fólksbílum í um tvo mánuði á ári og þá þurfi þeir að fara mjög hægt yfir. Margir bílar hafi skemmst á leið sinni yfir veginn vegna þess hversu ósléttur hann er. Hann segir að grófar áætlanir geri ráð fyrir því að um 75 þúsund manns fari um veginn á hverju ári sem upphaflega var búinn til sem ýtuslóð.
Í Fréttatilkynningunni segir m.a:
- Ástand Kjalvegar ógnar íslenskri ferðaþjónustu og skaðar ímynd hennar og Íslands. Í bókstaflegum skilningi er það reyndar líka svo að ástandið er afar skaðlegt fólksflutningafyrirtækjum. Þau þurfa ítrekað að þola tjón á stórum og smáum bílum sínum á Kjalvegi, stundum stórfellt tjón.
- Niðurgrafinn og ósléttur vegslóðinn stendur engan veginn undir nafni sem „vegur“ og er hvorki boðlegur ferðafólki né farartækjum.
- Við biðjum ekki um malbikaða „hraðbraut“ yfir hálendið og teljum raunar slíkar hugmyndir hvorki æskilegar, raunhæfar né þjóna hagsmunum ferðamennsku og íslensks þjóðarbús.
- Þarna á einfaldlega að vera góður „ferðamannavegur“, framkvæmd sem er raunhæf og þarf að komast á dagskrá strax til að leysa brýnan vanda.
- Við hvetjum til þess að Vegagerðinni verði gert kleift að halda áfram þar sem frá var horfið sumarið 2010 þegar vegarkafli að Grjótá, sunnan við Bláfellsháls, var breikkaður og hækkaður. Sú vegagerð var velheppnuð og til fyrirmyndar.
- Um 80 km langur og 6 metra breiður vegur, sem risi hálfan metra upp úr umhverfi sínu í stæði núverandi vegslóða að mestu leyti, myndi kosta um 330 milljónir króna og allt að 60 milljónum króna til viðbótar ef tengileiðir Kjalvegar eru taldar með (skv. upplýsingum frá Vegagerðinni).
- Kjalvegur er að stærstum hluta slóði sem ruddur var á sínum tíma til að flytja efni í varnargirðingar vegna mæðuveiki í sauðfé. Þessi niðurgrafna ýtuslóð er barn síns tíma, óravegu frá því að standast kröfur fólksflutningatækja nútímans.