Standa vörð um hagsmuni hátekjuheimila

Ögmundur Jónasson, fráfarandi innanríkisráðherra, ásamt öðrum ráðherrum á síðasta ríkisráðsfundi …
Ögmundur Jónasson, fráfarandi innanríkisráðherra, ásamt öðrum ráðherrum á síðasta ríkisráðsfundi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. mbl.is/Eggert

„Þetta eru kaflaskil; lífið er fullt af kaflaskilum. En þegar litið er til baka þá höfum við stigið ýmis skref fram á við. Þegar ég horfi yfir sviðið í innanríkisráðuneytinu þá er ég ánægður með margt sem þar hefur áunnist - ekki allt,“ sagði Ögmundur Jónasson, fráfarandi innanríkisráðherra, á Bessastöðum í dag.

Hann segir að í ráðherratíð sinni hafi framfaraskref verið stigið í mannréttindamálum. Þá tali réttarkerfið, dómskerfið og stjórnsýslan betur saman en hafi verið áður. Sömuleiðis hafi marg jákvætt gerst í sveitastjórnarmálum. Hann nefnir rafræna þjónustu og að búið hafi verið í haginn fyrir beint lýðræði.

Nýr stjórnarsáttmáli segir fátt

Hvað varðar nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir Ögmundur, að stjórnarsáttmáli þeirra segi mjög fátt og „minna en ég hafði búist við. Þetta eru meira fyrirheit og nefndarstörf.“

Þá segir hann að það veki athygli sína þegar ríkisstjórnin tali um það að nú verði stjórnvöld að standa vörð um hag heimilanna. „Þegar síðan er skilgreint nánar hvaða heimili það eru þá sýnist mér það vera hátekjuheimilin sem menn hafa mestar áhyggjur af. Þegar að horft er til breytinga á skattkerfi, svo mikilvægt dæmi sé tekið.“

Umhverfisráðuneytið sett ofan í skúffu

Hanna Birna Kristjánsdóttir er arftaki Ögmundar í innanríkisráðuneytinu. Spurður út í nýjan ráðherra segir Ögmundur: „Ég óska nýjum innanríkisráðherra alls velfarnaðar. Ég hef heyrt að hún hafi orð á sér fyrir að vera góð í samstarfi og það er mjög mikilvægt í þessu ráðuneyti.“

Hann bendir á að fráfarandi stjórnvöld hafi sameinað dómsmála- og samgönguráðuneytið undir stóra regnhlíf. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hlaupi ekki til og fari að rífa þetta allt í sundur,“ segir Ögmundur. 

Hann furðar sig hins vegar á því að ný ríkisstjórn boði án umræðu miklar breytingar í stjórnkerfinu. „Ég horfi þá nú ekki síst til umhverfisráðuneytisins sem mér sýnist að eigi að verða skúffa í stjórnarráðinu. Það er stórt skref aftur á bak.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert