„Við viljum koma þeim skýru skilaboðum til fólks að ofbeldi á heimilum verði ekki liðið,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, lögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum, en lögreglan á Suðurnesjum hefur síðustu mánuðina lagt sérstaka áherslu á að rannsaka heimilisofbeldi. Það sem af er þessu ári hefur sjö sinnum verið lögð fram krafa um nálgunarbann og brottvísanir á landinu öllu. Fimm af þessum málum eru á Suðurnesjum.
Árið 2010 voru 17 heimilisofbeldismál tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum. Aðeins einu af þessum málum var vísað frá rannsóknardeild til lögfræðisviðs sem sér um að gefa út ákærur eða fella mál niður. Þetta eina mál var hins vegar fellt niður vegna skorts á sönnunum.
„Þetta er sorgleg niðurstaða og var okkur mjög umhugsunarverð. Þetta bendir til þess að við höfum ekki verið að taka þessi mál nægilega föstum tökum fram að þessu,“ segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem stýrir rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum.
Eftir skoðun á meðferð heimilisofbeldismála á árunum 2010-2012 ákvað lögreglan að taka heimilisofbeldismál nýjum og fastari tökum. Ákveðið var í ársáætlun hennar að leggja sérstaka áherslu á rannsókn þessara mála. Tekið var upp samstarf við félagsþjónustuna í Reykjanesbæ, Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum og öll viðbrögð lögreglu við málum sem snerta heimilisofbeldi voru efld.
Grundvöllur að vinnu lögreglunnar eru verklagsreglur sem ríkislögreglustjóri setti árið 2005, en í reglunum eru brot af þessu tagi skilgreind, þar á meðal tengsl sem þurfa að vera til staðar svo mál teljist heimilisofbeldismál, tekið er fram hvaða greinar hegningarlaga brotin þurfa að varða og tekið er fram að brotin þurfi ekki að eiga sér stað inni á heimilum. Verkefnið er tímabundið til eins árs, en það hófst 1. febrúar sl.
Þegar lögreglan á Suðurnesjum fær tilkynningu um ofbeldi á heimilum er fyrsta skref að skilgreina hvort um sé að ræða ofbeldismál eða ágreiningsmál. Ef um heimilisofbeldi er að ræða setur lögreglan fullan kraft í rannsókn málsins strax á fyrstu stigum. Fulltrúi frá félagsþjónustunni er kallaður til og ræðir við þolanda og eftir atvikum brotamann. Hann aðstoðar þolandann m.a. við að fara til læknis til að fá áverkavottorð.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir að lögreglan leggi áherslu á að afla sem mestra gagna á vettvangi strax í upphafi. Framburðir séu teknir upp á staðnum, vettvangur sé ljósmyndaður, rætt sé við vitni sem hafi verið á staðnum, nágranna o.s.frv.
„Þegar lögregla fær tilkynningu um heimilisofbeldi opnast gluggi og við reynum að ná sem mestum upplýsingum meðan hann er opinn,“ segir Skúli og á við að fyrst eftir að lögreglan og félagsþjónustan mæti á staðinn séu málsaðilar tilbúnir til að segja frá og opnir fyrir því að þiggja hjálp. Afstaða fólks breytist stundum þegar frá líður og ró hefur komist á heimilislífið aftur. Skúli talar um að þá lokist glugginn og öll rannsókn málsins verði erfiðari og því sé nauðsynlegt að halda honum opnum sem lengst.
Áður en þetta breytta verklag var tekið upp hjá lögreglunni á Suðurnesjum og sveitarfélögum í umdæminu var algengt að lögreglumenn mættu á staðinn og fjarlægðu ofbeldismanninn. Þegar búið var að sleppa ofbeldismanninum fór hann iðulega heim til þolanda og þolandi vildi í framhaldi ekki afskipti lögreglu og því hafði málið ekki framgang í réttarkerfinu.
„Við viljum rjúfa þennan vítahring og koma þeim skýru skilaboðum til fólks að ofbeldi á heimilum verði ekki liðið,“ segir Alda. Hún segir aðspurð að hún líti ekki svo á að lögreglan sé að hafa óeðlileg afskipti af einkalífi fólks. Löggjafinn hafi sett lög um að refsa beri fyrir ofbeldi. Það feli í sér að lögreglan eigi að hafa afskipti af ofbeldi í nánum samböndum. Hún bendir líka á að samfélagið hafi skyldur gagnvart börnum. Rannsóknir sýni að það hafi alvarlegar afleiðingar fyrir börn að verða vitni að ofbeldi á heimili þar sem þau búa.
Alda segist ekki verða vör við annað en að fólk sé ánægt með nýja nálgun lögreglunnar og sveitarfélaganna á Suðurnesjum í þessum málum.
Hluti af breytta verklaginu felur í sér að lögreglumaður og starfsmaður frá félagsþjónustu sveitarfélaganna fara í heimsókn á heimilin þar sem ofbeldið átti sér stað innan viku frá því að málið kom upp. Skúli segir að tilgangurinn með þessum heimsóknum sé að kanna hvort aðstæður hafi breyst, hvort ofbeldið sé viðvarandi og minnt sé aftur á þá aðstoð sem er í boði. Hann segir að gerð sé skýrsla um heimsóknirnar. Þessar heimsóknir hafi reynst gagnlegar.
Lögreglan hefur útbúið vinnuskjöl sem m.a. miða að því að leggja mat á hvort líkur séu á ítrekuðu ofbeldi. Það mat hefur oftar en einu sinni reynst rétt og er stuðst við það við mat á því hvort ákvarða skuli nálgunarbann og eða brottvísun.
Áfengis- og vímuefnaneysla tengist oft ofbeldismálum á heimilum, en Alda segir það vera algengan misskilning að neysla sé oftast nær orsakavaldur ofbeldis. Það sem af er þessu ári hafi 40% málanna á Suðurnesjum verið tengd neyslu áfengis- og eða vímuefna.
Skúli segir að lögreglan á Suðurnesjum fari strax og tilkynning berst um heimilisofbeldi, að velta fyrir sér þeim möguleika að beita lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Athyglisvert er að það sem af er þessu ári hefur sjö sinnum verið lögð fram krafa um nálgunarbann og brottvísanir á landinu öllu. Fimm af þeim eru á Suðurnesjum. Skúli segist ekki telja að sú staðreynd að tæp 72% af öllum nálgunarbönnum og/eða brottvísun af heimili séu á Suðurnesjum sé til merkis um að þar sé svo miklu meira um heimilisofbeldi en annars staðar á landinu. Skýringin geti fremur verið fólgin í því að þessi nýja nálgun sveitarfélaganna á Suðurnesjum og lögreglunnar geri það að verkum að þolandi sé betur upplýstur um þau úrræði sem í boði eru og málum sé fylgt betur eftir en áður var.
Oftast er það þolandi ofbeldis sem biður um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili. Í lögunum segir að „Sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn, getur borið fram beiðni til lögreglu um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á annan hátt, sæti nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Sömu heimild hefur lögráðamaður brotaþola og sá sem kemur fram fyrir hönd félagsþjónustu og/eða barnaverndarnefndar í sveitarfélagi þar sem viðkomandi er búsettur. Lögreglustjóri getur einnig að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögum þessum ef hann telur ástæðu til.” Á þessu ári hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum í einu tilviki átt frumkvæði að því að ákvarða um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Breytt verklag hefur skilað sér í fjölgun mála í umdæminu. Árið 2010 voru 17 heimilisofbeldismál tilkynnt til lögreglu. Aðeins eitt fór til ákæruvalds þar sem það var fellt niður. Árið 2011 voru málin 25 og 10 þeirra fóru til skoðunar hjá ákæruvaldinu. Árið 2012 fékk lögreglan 41 tilkynningu um heimilisofbeldi, en þar af hafa 12 mál farið til ákæruvaldsins, en stór hluti málanna er enn í rannsókn. Það sem af er þessu ári eru málin 24 talsins.
Það vekur athygli að í 19 fyrstu málunum sem lögreglan fékk til rannsóknar á þessu ári komu 36 börn við sögu. Alda segir þetta sýna vel hversu mikilvægt sé að lögreglan tryggi að lagaleg úrræði séu nýtt til fulls. Börn eigi ekki að þurfa að horfa upp á ofbeldi á heimilum sínum.
Jóhannes segir dæmi um að þegar lögregla fer að rannsaka heimilisofbeldismál og kallar eftir gögnum úr heilbrigðiskerfinu fái hún í hendur bunka af skýrslum þar sem þolandinn hefur ítrekað leitað sér aðstoðar vegna áverka sem viðkomandi hlaut á heimilinu. Áverkarnir voru ekki skilgreindir sem heimilisofbeldi, en hann segir augljóst að þegar skýringar áverkanna séu þær að viðkomandi hafi ítrekað „gengið á hurð“ sé eitthvað mikið að. Dæmi eru um alvarlega áverka eins og beinbrot, en viðkomandi hefur samt ekki leitað til lögreglu.
Samkvæmt lögum þarf ákæruvaldið að tiltaka nákvæmlega í ákæru hvar og hvenær brot átti sér stað og þar þarf líka að lýsa brotinu. Í ákæru er því t.d. að finna lýsingu á að ákærði hafi „slegið með krepptum hnefa“ og taka þarf fram hvar höggið lenti. Í sænskum lögum er að finna heimild þar sem segir að ef um sé að ræða heimilisofbeldisbrot þurfi ekki að tiltaka nákvæmlega hvar, hvenær og hvernig brotið var framið. Það nægir að ákæruvaldið geti sannað að um heimilisofbeldi hafi verið að ræða.
Jóhannes telur að löggjafinn ætti að skoða hvort breyta ætti lögum með hliðsjón af sænsku lögunum. Þegar lögreglan fái tilkynningu um heimilisofbeldi og fari að rannsaka brotið komi oft í ljós að um langvarandi ofbeldi sé að ræða. Samkvæmt núverandi lögum sé hins vegar erfitt að kæra fyrir gömlu brotin því ekki sé lengur hægt að rannsaka brotavettvang og þolandinn muni kannski ekki nákvæmlega hvenær brotið átti sér stað eða hvort slegið var „með krepptum hnefa“ eða með „flötum lófa“.