„Ég hef tekið eftir því hvernig nútímafólk notar orðið sektarkennd í tengslum við kynferðisofbeldi. Annað sem ég hjó eftir, sem þolendur kynferðisofbeldis segja, er að það sé verið „að skila skömminni“. Þetta tvennt ýtti mér af stað að rannsaka þetta efni; hvernig tilfinning er skömm, er hægt að skila henni?,“ segir Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði. Hún hélt erindi um tilfinningarnar skömm og sekt og velti upp skyldleika þeirra og mismun. Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, stóð að fyrirlestrinum á Hallveigarstöðum.
Í erindinu var farið yfir hvernig heimspekingar til forna skrifuðu um þessar tilfinningar, og þykir Sólveigu enn þann dag í dag hægt að læra af þeim mannskilningi sem þar birtist.
„Ég skoða forsíðu DV, frá febrúar á þessu ári, en þar stendur: „Þeir rufu þögnina“, þar segja nokkrir karlmenn frá kynferðisofbeldi sem þeir sættu og allir tala þeir um þessa skömm. Ég orðræðugreini það sem þeir segja. Þar kemur í ljós að þar er bæði verið að tala um tilfinningarnar sektarkennd og skömm,“ segir Sólveig.
Niðurstaðan er sú að sektarkenndin er djúpstæð mannleg tilfinning sem ekki er hægt að skila á nokkurn hátt. Hægt sé að gera sér grein fyrir henni og hún kemur upp í ákveðnum aðstæðum, þegar manneskja upplifir hluti sem eru rangir og óeðlilegir. „Í framhaldinu upplifir manneskjan kvíða, sársauka og ótta til framtíðar, það er skömmin. Í sektarkenndinni, þá er yfirleitt verið að ásaka einhvern fyrir eitthvað sem gert hefur verið í fortíðinni og verið að staðsetja sektina hjá þeim sem við teljum að beri ábyrgð á því,“ segir Sólveig.
Hvað græðum við á að setja nákvæman merkimiða á þessar tilfinningar?
„Þessi orð og hugtök eru mikið notuð en eru óljós. Ég býst við að þeir sem þekkja þessar tilfinningar og hafa hugsað um þær vilji ræða um þær; horfa dýpra i þær og skilja,“ segir Sólveig og bætir við að við sárar upplifanir, áföll og tilfinningar láti tilfinningin skömm á sér kræla.