Verjandi eins sakborninga í máli ákæruvaldsins gegn sjö karlmönnum sem ákærðir eru fyrir stórfelldan innflutning amfetamíns gagnrýndi harðlega rannsókn lögreglu við aðalmeðferð málsins í morgun. Sér í lagi að meintur höfuðpaur í málinu hafi ekki verið til rannsóknar.
Síðari dagur aðalmeðferðarinnar hófst í morgun á skýrslutökum yfir lögreglumönnum sem komu að rannsókn málsins. Í málinu eru sjö ákærðir fyrir innflutning á rúmlega 19 kílóum af amfetamíni og 1.710 ml af amfetamínbasavökva.
Eins og fram kom við aðalmeðferðina í gær nafngreindi einn sakborninga við skýrslutöku þann sem hann sagði höfuðpaurinn í málinu, sem hafi séð um fjármögnun og skipulagningu. Lögreglumenn sem komu fyrir dóminn í morgun staðfestu það. Stjórnandi rannsóknarinnar sagði að þessu hefði verið fylgt eftir að mjög litlu leyti. „Við töldum okkur ekki hafa nóg til að gera eitthvað, en við fórum aðeins í þetta.“
Verjendur spurðu rannsóknarstjórnandann nánar út í hvað var gert. Þá viðurkenndi hann að „höfuðpaurinn“ hefði verið í Danmörku á sama tíma og efnin voru send til Íslands. „En við gátum ekki tengt þá frekar.“
Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi Dainius Kvedaras, fór yfir þetta í málflutningsræðu fyrir hádegið. Hann benti á að höfuðpaur málsins hefði verið nafngreindur og það hafi komið fram að hann var í Danmörku á sama tíma og ákærðu í málinu. „Hvers vegna var þetta ekki kannað frekar? Hér eru menn ákærðir sem aðalmenn í stóru fíkniefnamáli þegar búið er að nafngreina höfuðpaurinn en hans þáttur var ekki rannsakaður. Það var ekki einu sinni tekin af honum símaskýrsla.“
Umræddur maður, Ársæll Snorrason, lést í Ósló í Noregi í byrjun þessa mánaðar. Guðmundur sagði þetta koma heim og saman við framburð fyrir dómi um fyrirhugaða ferð Símonar Páls Jónssonar til Noregs. Einnig hafi Símon Páll og Jónar Fannar farið til Noregs skömmu fyrir ferðina til Kaupmannahafnar.
Guðmundur sagðist gáttaður á því að þetta hefði ekki verið kannað til þrautar, þó ekki nema fyrir þá skyldu að kanna hvort þáttur ákærðu hafi verið minni en lögregla taldi; þeir væru hugsanlega burðardýr.