Tölvuþrjótar svíkja út kortanúmer

Ernir Eyjólfsson

„Ég fékk símhringingu frá mönnum sem kynntu sig sem fulltrúa frá Microsoft. Þeir sögðu að tölvan mín hefði sent þeim skilaboð um að búnaðurinn minn væri bilaður. Þeir slógu um sig með því að nota mikið af tölvuorðum og töluðu ensku. Þeir voru a.m.k. tveir því það heyrðist í öðrum sem kallaði fram í. Þegar ég hafði sagt þeim hvað tölvan mín væri gömul sögðu þeir að kerfið væri orðið úrelt og ég þyrfti að fá nýtt. Þá buðu þeir mér að borga fyrir eitt, þrjú eða fimm ár í senn fyrir það. Þeir kröfðust þess að fá greiðslu og báðu um kortanúmer og lögðu mikla áherslu á að það yrði að komast í lag fljótt því annars myndi tölvan mín hrynja,“ segir Baldur Böðvarsson sem lét tölvuþrjóta ekki gabba sig. Baldur er 88 ára gamall og er tiltölulega nýhættur að nota tölvu. 

Borið hefur á að tölvuþrjótar hringi í fólk í nafni Microsoft og biðji um kreditkortanúmer eða fara inn á tilteknar síður sem eru fullar af óværu.  

Faraldur sem kemur í bylgjum

„Þetta er faraldur sem kemur í bylgjum og hefur gengið alltof lengi. Það er eins og menn fari í átak, hringi í fólk og biðji það ýmist um að fara á tilteknar síður og þá smitast tölvan af einhverri óværu, eða óski eftir kreditkortanúmeri því eitthvað þurfi að laga í tölvunni.  Microsoft hringir aldrei í einstaklinga að fyrra bragði ekki nema óskað sé sérstaklega eftir því,“segir Halldór Jörgensson framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.

Halldór ítrekar að fólk eigi ekki að svara slíkum símtölum og þaðan af síður að gefa upp kreditkortanúmer.   

Undanfarna tvo mánuði hefur borið töluvert á því að hringt hafi verið í fólk og það sagst vera frá Microsoft. „Ég hef það þó á tilfinningunni að þetta sé í rénun núna en það er samt greinilegt að enn er verið að hringja í fólk,“ segir Halldór. 

„Ekkert annað en glæpamenn“

„Þetta er því miður alltof algengt. Þetta eru óprúttnir aðilar sem eru ekkert annað en glæpamenn. Við erum með starfrækta deild sem heitir „Digital crime unit“. Hún gerir ekkert annað en að eltast við óprúttna aðila. Þessi aðferð sem þeir beita, þegar þeir hringja í fólk, er kölluð félagsleg leið. Fólk er berskjaldaðra þegar hringt er í það og því miður eru einhverjir notendur sem láta blekkjast. En ég held að fólk sé orðið þokkalega meðvitað um hvað er í gangi,“segir Halldór spurður hvort hægt sé að koma í veg fyrir að tölvuþrjótar nái sínu fram.

Umræðan um þessi málefni hjálpi mikið til í þeim efnum segir Halldór og brýnir fyrir fólki að ef það fær hringingu frá aðilum sem segjast vera frá Microsoft og eigi að gera eitthvað, þá sé það ekki á þeirra vegum. Microsoft á Íslandi sendir gjarnan út tilkynningar þar sem varað er við tölvuþrjótum, þegar mikið er um slíkt. Gott er að fólk fylgist með því, einnig sendir lögreglan gjarnan út tilkynningu ef mikið er um slíkt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka