Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni segir óvenjulega lægð í vændum miðað við árstíma og hún setji svip sinn á veðrið næstu tvo daga eða svo. „Það hvessir af suðaustan á Vestur- og Suðvesturlandi strax í nótt og er útlit fyrir að vindur verði í hámarki í fyrramálið vestanlands. Meðalvindur 15-18 m/s og hviður allt að 25-30 m/s. Þetta á til að mynda við um norðanvert Snæfellsnes, veginn undir Hafnarfjalli og utanvert Kjalarnes. Norðan- og austanlands er einnig gert ráð fyrir strekkingsvindi á morgun og þar er einnig hætt við staðbundnum vindhnútum.“
VÍS beinir því til ökumanna húsbíla og þeirra sem draga aftanívagna að huga vel að veðurspám og vindmælingum t.d. á Vegasjá Vegagerðarinnar.
Vindur og vindhviður hafa mikil áhrif á stöðugleika ökutækja, segir í tilkynningu frá VÍS. Best er að vera ekki á ferðinni þegar varað hefur verið við miklum vindi og vindhviðum og á það sér í lagi við um ökumenn húsbíla og þá sem ferðast með eftirvagn. Auka má stöðugleika ökutækis mikið með því að draga úr hraða.
Þá er mikilvægt að hafa í huga að í vatnsveðri eins og spáð er minnkar veggrip bílsins. Ennfremur þurfa ökumenn að vera meðvitaðir um vindhviður sem oft fylgja því að mæta stóru ökutæki. Í mjög miklum vindi er besta ráðið að stoppa og snúa ökutækinu upp í vindinn.