Bjarni dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi

Bjarni Ármannsson.
Bjarni Ármannsson. mbl.is/Jim Smart

Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis banka, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Bjarni var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008, eins og segir í ákæru.

Þá var Bjarni dæmdur til að greiða 35.850.000 krónur í sekt í ríkissjóð auk 1.691.113 króna í laun verjanda síns.

Í dómnum kemur m.a. fram að Bjarni hafi neitað sök í málinu. Hann viðurkenndi að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur sínar sem í ákæru greinir, en taldi að málinu hefði átt að ljúka með úrskurði ríkisskattstjóra.

Mundi ekki eftir að telja fram

Bjarni gaf þær skýringar á því að hann vanframtaldi fjármagnstekjur sínar að um handvömm eða mistök hafi verið að ræða af hans hálfu. Verulegur hluti þeirra tekna sem um ræðir voru hagnaður vegna sölu á hlutabréfum í Sjávarsýn ehf. Bjarni gerði grein fyrir því hvernig hann stóð að því að sameina tvö félög í sinni eigu, en við þá samningsgerð myndaðist söluhagnaður að fjárhæð 196.776.196 krónur, sem gögn málsins bera með sér að hafi runnið inn á bankareikning hans. Rakti Bjarni rakið hvernig hann stóð að framtalsgerð sinni vegna tekjuársins 2006 og að hann hafi ekki munað eftir því að telja fram tekjur sínar að þessu leyti.

Í niðurstöðu dómsins segir að Bjarni hefi borið að hann hafi talið að starfsmenn bankans hefðu haldið eftir og staðið skil á fjármagnstekjuskatti vegna viðskiptanna, en að hann hafi þó ekki kannað það sérstaklega. Þá segir: „Ákærði er fyrrum forstjóri bankans, en hefur starfað sem fjárfestir eftir starfslok þar. Í ljósi fyrri stöðu hans og starfsreynslu á þessu sviði hefði mátt vænta að hann þekkti til þess hvernig framkvæmdinni var háttað að þessu leyti innan bankans. Hvað sem því líður er óumdeilt að ákærði gerði ekki grein fyrir tekjum sínum vegna viðskiptanna á skattframtölum.“

Bjarni hefur ekki áður sætt refsingu. Hann er í málinu sakfelldur fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum, en háttsemin er ekki virt honum til ásetnings. Þá segir í niðurstöðu dómsins að Bjarni hafi greitt að fullu opinber gjöld, samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, auk álags.

Bjarni mætti ekki við dómsuppsöguna en lögmaður hans sagði allar líkur á að dómnum yrði áfrýjað.

Óskaði frestunar málsins meðan beðið væri niðurstöðu MDE

Verjandi Bjarna lét bóka áður en dómurinn var kveðinn upp að: „Mannréttindadómstóll Evrópu hafi eftir að málið var dómtekið ákveðið að taka fyrir skattamál ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni til meðferðar fyrir dómstólnum. Í því máli er meðal annars byggt á Ne bis in idem-reglunni. Sú regla hefur verið grunnþátturinn í vörn umbjóðanda míns hér fyrir dóminum. Íslenska ríkið hefur frest til 26. september næstkomandi til þess að svara MDE og dóms er að vænta um næstu áramót. Það ríkir því verulegur vafi um refsiheimildina í máli ákærða, þannig að ekki verður séð að unnt sé að kveða upp dóm við þessar aðstæður, samanber 115. grein. einkamálalaga. Ég óska því eftir að málinu verði frestað þar til dómur MDE liggur fyrir, samanber 3. mgr. 102. gr. sömu laga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert