Aðgerðir til hagræðinga hjá stofnunum

mbl.is/Jim Smart

Í morgun samþykkti ríkisstjórnin erindisbréf hagræðingarhóps sem leggja skal til aðgerðir til þess að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í rekstri stofnana ríkisins. Í erindisbréfinu segir að hópurinn skuli fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins s.s. fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna.

Hagræðingarhópurinn starfar undir stjórn Ásmundar Einars Daðasonar alþm. og í honum sitja auk hans Guðlaugur Þór Þórðarson alþm., Vigdís Hauksdóttir alþm. og Unnur Brá Konráðsdóttir alþm. Með hópnum starfa Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, og Sigurður Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, auk tveggja utanaðkomandi sérfræðinga sem hópurinn velur sér til samstarfs í samráði við ráðherranefnd um ríkisfjármál og síðan aðrir starfsmenn ráðuneyta og stofnana eftir þörfum. 

Um er að ræða vinnu sem unnin er til hliðar við hefðbundna fjárlagavinnu ársins 2014 og þau aðhaldsmarkmið og aðgerðir sem þar er unnið eftir. Tillögurnar byggjast á því að ekki verði um að ræða flatan niðurskurð allra verkefna heldur lagðar til einstakar aðgerðir sem skila verulegri hagræðingu til framtíðar. Staldra þarf við og spyrja spurninga og endurmeta þörfina fyrir verkefni ríkisins með reglulegum hætti. Spyrja þarf spurninga eins og hver er tilgangurinn með verkefninu, hver er þörfin fyrir það, hverjir njóta ávinningsins o.s.frv.

Markmiðið er að hagræðingarhópurinn leggi fram tillögur sem miði að því að auka framleiðni í rekstri ríkisins umtalsvert. Miðað skal við að markmiðinu verði náð á fyrri hluta kjörtímabilsins og að afraksturs hópsins sjái stað í fjárlögum á hverju ári.

Hagræðingarhópurinn heyrir undir ráðherranefnd um ríkisfjármál sem samanstendur nú af forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra og verður henni reglulega haldið upplýstri um gang mála á milli þess sem hópurinn skilar formlega til hennar tillögum, segir í frétt frá forsætisráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert