Sala til Verne Holding fól í sér ríkisstyrk

Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.

EFTA-dómstóllinn hefur staðfest niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að íslensk stjórnvöld hafi árið 2008 veitt ólögmætan ríkisstyrk við sölu fasteigna til Verne Holdings.

Málavextir í málinu eru þeir að Verne og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. („Þróunarfélagið”), sem var alfarið í eigu íslenska ríkisins, gerðu þann 26. febrúar 2008 samning um að Verne keypti fimm fasteignir á svæði varnarliðsins við Keflavíkurflugvöll. Kaupverðið nam 14,5 milljónum Bandaríkjadala, eða á þeim tíma ígildi 957 milljóna íslenskra króna.

Ríkið tapaði málinu hjhá ESA

Í ákvörðuninni sem deilt var um í málinu komst ESA að þeirri niðurstöðu að sala ríkisins á þessum eignum fæli í sér ríkisstyrk sem væri í andstöðu við EES-samninginn. ESA taldi að þar sem KADECO hefði ekki fylgt leiðbeiningarviðmiðum stofnunarinnar um sölu fasteigna þá væri ekki hægt að ganga út frá því að salan félli utan reglna um ríkisstyrki. ESA lagði í því sambandi áherslu á að einungis ein fasteignanna hefði verið auglýst sérstaklega í íslenskum dagblöðum. Þess utan hefðu auglýsingar aðeins verið birtar á heimasíðu Þróunarfélagsins þar sem kallað hefði verði eftir hugmyndum um uppbyggingu svæðisins.

Í ljósi þess að ekki væri hægt að ganga út frá því að viðskiptin féllu utan reglna um ríkisstyrki, taldi ESA að áreiðanlegasta viðmiðið fyrir markaðsvirði eignanna væri fólgið í opinberu fasteignamati þeirra sem Fasteignaskrá hefði látið gera. Vísaði ESA þá til þess að samkvæmt Fasteignaskrá hefði heildarandvirði fasteignanna fimm numið 1.177.850.000 íslenskra króna þegar viðskiptin fóru fram og komst í framhaldinu að þeirri niðurstöðu að mismunur matsvirðisins og söluverðsins - sem svaraði til
220.850.000 íslenskra króna – fæli í sér ríkisstyrk.

Málatilbúnaður íslenskra stjórnvalda fyrir EFTA-dómstólnum byggðist í fyrsta lagi á því að ESA hefði ekki sýnt fram á að fasteignirnar hefðu verið seldar undir markaðsvirði, þar sem ESA hefði ekki kannað söluferlið, auk þess sem verulegir annmarkar væru á því hvernig stofnunin hefði metið markaðsvirði fasteignanna. Í öðru lagi hefði ESA hvorki aflað nægilegra upplýsinga í málinu né rökstutt ákvörðun sína með viðhlítandi hætti.

Dómstóllinn hafnaði málatilbúnaði íslenskra stjórnvalda um að ESA hefði ekki sýnt fram á að fasteignirnar hefðu verið seldar undir markaðsvirði. Taldi dómstóllinn í fyrsta lagi ekkert við þá niðurstöðu ESA að athuga að söluferli fasteignanna hefði ekki verið nægilega auglýst í merkingu leiðbeiningarviðmiða stofnunarinnar um sölu fasteigna. Dómstóllinn lagði í því sambandi áherslu á að fjórar fasteignanna hefðu einungis verið auglýstar á heimasíðu Þróunarfélagsins og ekkert í málinu benti til þess að sú vefsíða væri heppilegur vettvangur til að ná til allra kaupenda.

Í öðru lagi taldi dómstóllinn að engir verulegir annmarkar væru á því hvernig ESA hefði metið markaðsvirði eignanna og að ESA hefði að því leyti reitt sig á matsverð Fasteignaskrár Íslands. Í því sambandi vísaði dómstóllinn sérstaklega til þess að í tölvubréfi til ESA frá 13. maí 2012 hefðu íslensk stjórnvöld sjálf veitt ESA þær upplýsingar að það matsvirði sem Fasteignaskrá Íslands legði til grundvallar við ákvörðun skattstofns, endurspeglaði að öllu jöfnu markaðsverð fasteignar.

Dómstóllinn hafnaði einnig málatilbúnaði íslenskra stjórnvalda um að ESA hefði ekki upplýst málið nægilega vel eða ekki gætt hlutlægni við rannsókn þess. Þá taldi dómstóllinn að rökstuðningur ESA fyrir ákvörðuninni hefði verið nægilega greinargóður til að fullnægja kröfum til efnis slíks rökstuðnings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert