Ríkisstjórnin veitir Anítu styrk

Aníta Hinriksdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Aníta Hinriksdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mbl.is/Styrmir Kári

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Anítu Hinriksdóttur, nýlegum Evrópu- og heimsmeistara í 800 metra hlaupi, tveggja milljón króna styrk á ári fram að Ólympíuleikunum í Rio de Janero árið 2016. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Styrkurinn rennur til Íþróttasambands Íslands, eyrnamerktur Anítu og verður samtals átta milljónir

„Ég vil biðjast afsökunar á að hafa dregið þig úr vinnunni,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. „Okkur langaði að þakka þér fyrir það sem þú hefur gert og fyrir að vera sérstaklega góð fyrirmynd. Við vildum á táknrænan hátt þakka þér fyrir það. Þetta er mikil vinna og mikill kostnaður sem fylgir því að keppa á þeim stað sem þú ert komin. Ríkisstjórnin ræddi þetta á fundi áðan og menn voru sammála um að leggja eitthvað að mörkum,“ sagði Sigmundur.

„Sýnir að við erum ákaflega stolt af henni“

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir styrkinn eiga að styðja við hennar íþróttaiðkun og þjálfun. „Ég held að það sé ágætt fyrirkomulag að styrkurinn renni í gegnum ÍSÍ þar sem þeir halda utan um þetta. Þetta var gert í samráði við hennar íþróttafélag, hana sjálfa og foreldra hennar.“

Illugi segir enga stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar, hvað styrki til íþróttamanna varðar, vera í styrkveitingunni fólgin. „Það eru fordæmi fyrir því að ríkisstjórnin veiti sérstaka styrki þegar unnin hafa verið einstök íþróttaafrek. Þetta er í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar sem við eignumst heimsmeistara í frjálsum íþróttum og eðlilegt er því að ríkisstjórnin bregðist við.“

Hann sagði að þegar litið væri til alls þess kostnaðar sem íþróttamenn standa fyrir á þessu stigi hrykki fjárhæðin ekki fyrir kostnaði. „Við erum að leggja fram fyrir hönd skattgreiðanda þessa upphæð. Ég veit að það er þó heilmikil vinna fyrir höndum að auka við þessa fjármuni.“ Þá sagði hann að hafa þyrfti í huga að ef hún kæmi frá fjölmennari þjóð hefði hún úr meiri fjármunum að spila og að hún væri að keppa við einstaklinga sem hafa betri aðstæður. 

„Mér finnst því mjög réttlætanlegt að veita þessum fjármunum til hennar,“ sagði Illugi og áréttaði að þetta væri ekki einungis mikilvægt fyrir Anítu, heldur sé þetta mikilvægt fyrir okkur öll. „Það sem er sérstaklega mikilvægt er að afreksmenn í íþróttum eru fyrirmyndir, og við þurfum fyrirmyndir. Svo vekur þetta athygli á okkur Íslendingum með jákvæðum hætti. Það sýnir að hér eru afreksmenn, þó við séum fámenn þjóð og einnig að við erum ákaflega stolt af henni.“

Hann segir málið hafa verið fljótafgreitt hjá ríkisstjórninni og að eining hafi verið þar um. „Þetta ýtir ekki frá okkur öllum þeim stóru og erfiðu vandamálum sem við erum að fást við með ríkisreksturinn. En þó svo að við séum með vandamál í rekstri ríkisins þurfum við að bregðast við þegar svona gerist. Þegar horft er til upphæðarinnar og hún sett í samhengi við önnur mál sem við erum að fást við og það hversu einstakt málið er, að þá má nú segja að þessum fjármunum sé alveg einstaklega vel varið.“

Forsætisráðherra og menntamálaráðherra boðuðu til blaðamannafundar í dag en þar …
Forsætisráðherra og menntamálaráðherra boðuðu til blaðamannafundar í dag en þar var kynnt framlag ríkisins til handa ÍSÍ vegna árangurs Anítu Hinriksdóttur mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert