Datt af baki fyrir Dorrit

„Þessi opnunarhátíð hér í Berlín hún er alveg einstök, að svona mikill fjöldi unnenda íslenska hestsins allsstaðar að frá Evrópu skuli ríða hér upp þessa breiðgötu að Brandenborgarhliðinu,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, eftir að farin var boðreið að Brandenborgarhliðinu og reið Dorrit Moussaieff forsetafrú fremst. 

Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Klaus Wowereit, borgarstjóri Berlínar, ávörpuðu hestamennina við Brandenborgarhliðið. Heimsmeistaramót íslenska hestsins er haldið í Berlín í Þýskalandi að þessu sinni og hófst í dag. Það stendur yfir til 11.ágúst. Fjöldi íslendinga eru þegar mættir á staðinn sem munu fylgjast með mótinu. 

„Eins og frægt er orðið þá hef ég nú ýmislegt lagt á mig til þess að njóta íslenska hestsins og eins og margri aðrir dottið af baki en engu að síður farið aftur á bak,“ segir Ólafur Ragnar í viðtali við Eiðfaxa og bætir við að fyrstu kynni hans af hestinum hafi verið með föður sínum á Ísafirði. Þá hafi fyrstu kynni Dorritar af Íslandi verið þegar hann datt af baki og hún þurfti að hjúkra honum.

 „Ég hef stundum sagt að það sýndi ást mína til hennar að ég skyldi leggja það á mig að detta af baki, tíu árum seinna þegar hún var kannski eitthvað farin að efast datt ég af baki aftur og axlabraut mig aftur til að sýna að ástin væri ennþá lifandi,“ segir Ólafur Ragnar.

Forsetahjónin munu fylgdust með setningunni í dag og munu fylgjast með ýmsum greinum á morgun og skoða sýningarsvæði þar sem kynntar eru ferðir til Íslands og hönnun og framleiðsla ýmissa vörutegunda sem tengjast íslenska hestinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert