Kærður vegna bensíns á díselbíl

Mörgum hleypur kapp í kinn í drullunni
Mörgum hleypur kapp í kinn í drullunni Eva Björk Ægisdóttir

Á Mýrarboltanum á Ísafirði er hefð fyrir því að leikmenn fái útrás fyrir reiði sína með því að leggja fram kæru. Kærð brot eru misalvarleg en mörg þykja þau frekar fyndin. Kærurnar eru allar meðhöndlaðar á sama hátt. Á laugardagskvöldi eru þær lesnar upp og tilkynntar og síðan hent í ruslið. 

Kærurnar eru af ýmsum toga en til dæmis er algengt að kæra liðsfélaga sem sefur yfir sig á leikdag. Ein kæran í ár er af óvenjulegum toga þar sem eitt liðið kærði liðsfélaga sinn sem fyrir mistök setti bensín á díselbifreið á Hólmavík. 

„Við vorum komnir á Hólmavík eftir að hafa villst aðeins á Vestfjörðunum og keyrt í átt að Patreksfirði. Ég þarf síðan að fylla á bílinn en set óvart bensín á díselbílinn. Til að byrja með fer bíllinn að hiksta og drepur svo á sér. Þar sitjum við fastir í nokkra tíma en um miðnætti kemur bóndi að og reynir að dæla upp úr honum. Það tekst hins vegar ekki þannig hann skutlar okkur inn á Drangsnes,“ segir Ásgrímur Hermannson, sökudólgurinn í málinu.

Ferðinni seinkaði um 22 klukkustundir

Þegar á Drangsnes var komið var tekið vel á móti strákunum. „Þar er vinalegt fólk sem tekur á móti okkur, bíður upp á rauðvín og kaffi og segir okkur að við þurfum að fara í pottinn á Drangsnesi. Þar sitjum við fram eftir nóttu og gistum að lokum. Um morguninn var síðan dælt upp úr bílnum og við vorum loks komnir um sjöleytið í gærkvöldi á Ísafjörð.“

Ásgrímur hefur enn ekki ákveðið hvernig hann ætlar að snúa sér í málinu. „Ég veit ekki alveg hvernig þetta mun fara fram né hvaða afleiðingar þetta hefur. Ég er hins vegar búinn að keppa einn leik núna og reyni að bæta upp fyrir þetta. Ég mun halda uppi vörnum og réttlætið mun sigra,“ segir hann ákveðinn að lokum.

Við erum glaðir þegar löggan er glöð

Jón Páll Hreinsson, mýrarfláki, segir hátíðina ganga ljómandi vel og alla vera í miklu stuði. Hann segir boltaleikina ganga vel fyrir sig þó algengt sé að menn brjóti af sér í hita leiksins. „Hauspokinn er afar vinsæll og dómarinn notar hann óspart enda hleypur mörgum kapp í kinn í drullunni.“

Hann segir brotin þó frekar vera í ætt við glímubrögð heldur en hefðbundin fótboltabrot. „Þetta gerist ekkert mjög hratt þannig að menn hafa ekki tækifæri til þess að dúndra hvorn annan niður.“

Úrslitaleikjunum í Mýrarboltanum lýkur um klukkan fjögur í dag og eru þá allir sendir heim í ballgallann þar sem Retro Stefson heldur uppi fjöri í kvöld.

Tuðrutussur komnar í 16 liða úrslit
Tuðrutussur komnar í 16 liða úrslit Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka