„Húsið á sama verði í tvö ár“

„Húsið hefur verið á sama verði í tvö ár en við auglýsum það reglulega á góðu verði,“ segir Elmar Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi. Mbl.is birti fyrr í dag frétt þar sem greint var frá mismunandi verði á Lillevalla-húsi sem fáanlegt er í Bauhaus en út frá myndum sem fylgja fréttinni má ætla að verð á húsunum hafi verið hækkað áður en útsölur hófust í ágúst. Elmar Örn segir það af og frá, húsið hafi verið á sama verði frá því verslunin var opnuð hér á landi.

Í júní var húsið auglýst sem úrvalsvara á 279.995 krónur en fyrra verð kemur ekki fram. Á útsölunni í ágúst kostar húsið aftur á móti 335.995 krónur og upphaflegt vöruverð sagt 419.995 krónur. Svo virðist sem verðið á skúrnum hafi hækkað töluvert milli mánaða áður en sjálf útsalan hófst.

„Húsið var á þessu verði í júní en nú í ágúst er minni afsláttur en var á húsinu fyrr í sumar,“ segir Elmar Örn. Hann segir að í svokölluðum úrvalsvörublöðum Bauhaus, líkt og því sem kom út í júní, séu nokkrar vörur auglýstar á mjög hagstæðu verði og hafi húsið verið eitt af þessum vörum. Þá fari vöruverð einnig eftir lagerstöðu hverju sinni.

Elmar segir af og frá að verðið á húsinu hafi verið hækkað áður en útsalan hófst. „Verðið hækkaði ekki fyrir útsöluna, það hefur verið á sama verði í tvö ár, 419.995 krónur.“

Á sömu síðu í blöðunum tveimur má einnig finna fleiri Lillevalla-hús. Þá er eitt húsið til að mynda auglýst til sölu á 299.995 krónur í úrvalsvörublaði Bauhaus í júní en á útsölunni í ágúst er verðið 239.995 krónur og upprunalegt verð sagt vera 300.995 krónur. Ekki hefur úrvalsvöruverðið í júní því verið langt frá upprunalega verðinu, heldur munaði aðeins þúsund krónum.

Frétt mbl.is: Hækkuðu vöruverð fyrir útsöluna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert