Skaut reyndum mönnum ref fyrir rass í skotfimi

„Það eru auðvitað nokkrar vinkonur mínar sem hafa sagt við …
„Það eru auðvitað nokkrar vinkonur mínar sem hafa sagt við mig að þær verði nú að prófa þetta einhvern tímann, en það hefur ekki orðið neitt úr því.“ Mbl.is/Rósa Braga

Soffía Bergsdóttir kom mörgum á óvart á Íslandsmeistaramótinu í benchrest skotfimi um síðustu helgi. Hún lenti í fjórða sæti á mótinu, sem var tveggja daga mót, og sigraði að sögn mótshaldara reynslubolta sem hafa áratuga reynslu af slíkri skotfimi. Soffía er fyrsta konan til þess að taka þátt í mótinu. Benchrest riffill er riffill sem liggur stöðugur í festingu og púða á borði og hefur áfastan sjónauka. Á mótinu var fyrri daginn keppt í 100 metra keppni og seinni daginn í 200 metra keppni. 

Upphafið að byssuáhuganum segir Soffía að megi rekja til föður hennar. „Pabbi er búinn að vera í þessu síðan ég man eftir mér. Ég hef verið að hjálpa honum með að hlaða skot og svona frá því að ég var lítil, ég veit svo sem ekki hvort það sé alveg eðlilegt!“Soffía gerði sér þó lítið fyrir og sigraði föður sinn á mótinu. „Ég endaði fyrir ofan pabba. Hann hafði orð á því að ég þyrfti helst að taka hann í smá kennslustund. Það væri ábyggilega eitthvað sem hann gæti lært af mér miðað við úrslit mótsins.“

Soffía æfir skotfimi ekki af fullum krafti en hefur frá áramótum fjölgað komum sínum á skotsvæðið. „Það er eitthvað við þetta, að sitja ein með rifflinum, pæla í vindinum og stilla sjónaukann, sem heillar.“ Fáar konur stunda skotfimi og vill Soffía hvetja fleiri til þess að prófa. „Það eru auðvitað nokkrar vinkonur mínar sem hafa sagt við mig að þær verði nú að prófa þetta einhvern tímann, en það hefur ekki orðið neitt úr því. Það eru einhverjar konur sem hafa verið að keppa í haglagreinum og loftgreinum en ekki benchrest.“ 

Soffía er með byssuleyfi og stefnir á að fara með föður sínum á hreindýraveiðar í september. „Ég er aðeins búin að æfa mig með hreindýrariffilinn á skotsvæðinu, en hef mest bara verið að skjóta með benchrest riffli. En kannski fer ég að leggja meiri stund á þetta fyrst það gekk svona vel á mótinu,“ segir Soffía. 

SoffíaBergsdóttir með fjólubláa glimmerriffilinn sinn.
SoffíaBergsdóttir með fjólubláa glimmerriffilinn sinn. SR/Arnbergur Þorvaldsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert