Sjálfstæðir umhverfisverndarsinnar beina því til bæjarstjórnar Garðabæjar að hún endurskoði afstöðu sína til þeirra vegframkvæmda sem nú standa yfir í Gálgahrauni.
Í fréttatilkynningu segir að Sjálfstæðir umhverfisverndarsinnar séu ný umhverfisverndarsamtök, sem voru stofnuð í sumar og eiga tæpa 70 meðlimi. Allir eigi meðlimirnir það sameiginlegt að hallast undir stefnu Sjálfstæðisflokksins og telja að umhverfisvernd geti vel rúmast þar innan
„Það er einlæg ósk okkar að bæjarstjórn Garðabæjar sem hefur skipulagsvald í Gálgahrauni endurskoði afstöðu sína til þeirra vegframkvæmda sem nú standa yfir. Við drögum stórlega í efa að mikil þörf sé fyrir 4 akreina hraðbraut þvert yfir hraunið á þessum stað og hvað þá á þessum tímapunkti og óskum eindregið eftir því, að aðrir kostir verði skoðaðir ítarlega.
Við förum þess því góðfúslega á leit við bæjarfélagið, að sú veghönnun sem snýr að þessu svæði verði endurskoðuð og að sérstök áhersla verði lögð á vernd náttúrunnar og þeirrar fegurðar, sem m.a. birtist í hinum sérstæðu hraunmyndunum Gálgahrauns.
Verndargildi Gálgahrauns er ótvírætt , enda skráð á náttúruminjaskrá og að hluta til friðlýst. Þarna eru merkilegar jarðmyndanir, gróðurfar og fuglalíf ásamt hinni fornu Fógetagötu og Gálgakletti, hinum forna aftökustað sem hraunið dregur nafn sitt af.
Við vörpum þeirri hugmynd, að útivistagildi svæðisins verði undirstrikað m.a. með bættum merkingum og göngustígum, svo Garðbæingar og nágrannar á öllum aldri geti notið þeirrar einstæðu náttúru sem þarna er að finna innan bæjarmarkanna,“ segir í tilkynningunni.