Vikið af stefnu sem sátt ríkti um

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartar framtíðar
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartar framtíðar Mbl.is/Ómar

Guðmundur Steingrímsson var að ljúka ræðu sinni um stefnuræðu forsætisráðherra. Í ræðu sinni fjallaði hann um mikilvægi þess að vita hvert ferðinni sé heitið, þegar lagt er af stað í langferð eins og endurreisn Íslands sé. Hann ræddi fyrst um allt það starf sem fór af stað í kjölfar hrunsins þegar mestu mótmælaöldurnar höfðu lægt. 

„Fólk fór á fullt, af væntumþykju og ósérhlífni, við að skilgreina hvert endurreisnin ætti að leiða okkur. Að skilgreina hvert förinni væri heitið. Rannsóknarnefndarskýrslan var gefin út. Yfirgripsmiklar úttektir og þingsályktunartillögur fylgdu í kjölfarið um það hvernig stjórnsýslan þyrfti að breytast, þingið að breytast og fjármálakerfið að breytast. Áætlanir um byggingar nýs Landsspítala, sem er þjóðarnauðsyn, voru endurskoðaðar, lagaðar að breyttum aðstæðum og fela í sér uppbyggingu á lífsnauðsynlegri grunnþjónustu og hagræðingu.“

„Viðræður við ESB voru því hafnar með það markmið að finna út, með samningi, hvort við ættum þar heima. Verslunarráð, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaþing, ASÍ, Samtök iðnaðarins – öll fóru þessi samtök af stað og skilgreindu sóknarfæri Íslands. Hvaða aðgerða væri þörf til þess að rétta úr kútnum.“ 

„Margt hefur gengið brösulega á liðnum árum. Margt má gagnrýna. En þessa vinnu, þetta frumkvæði,– þennan áhuga Íslendinga og útlendinga á því að finna bestu leiðina heim, fyrir íslenskt þjóðfélag út úr ógöngunum – þetta má ekki drepa. Í þessu starfi öllu liggur mikill auður. Og það sem meira er: Það hefur í raun ríkt mikill samhljómur í öllu þessu starfi.“

Á leið út í óvissuna

Guðmundur telur að fjárlögin sem kynnt voru í gær leiði til óvissu í samfélaginu. 

„En hvar stöndum við núna?  Mig grunar að eftir alla þessa vinnu,  líði sumum núna dálítið eins og þeir hafi verið settir í poka upp á þilfar á ókunnugu skipi og séu á leiðinni eitthvert út í óvissuna.  Læknir á Landsspítala spyr sig sjálfsagt núna: Bíddu við. Á semsagt ekkert að byggja upp á Landsspítalanum? Á hann að drabbast niður?“

„Stjórnmál snúast um stefnu. Á þessum tímapunkti vakna svo ótal margar spurningar um nákvæmlega hana. Hver er hún? Þrátt fyrir allt óeigingjarna starfið, skýrslur, úttektir, er óvissan allt um lykjandi.“

Hann sagði síðan frá nokkrum þeim málum sem Björt framtíð hyggst leggja árherslu á á kjörtímabilinu, gjaldeyrismál, mannréttindi og lýðræðismál. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í kvöld.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra á Alþingi í kvöld.
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka