Læknar stofna verkfallssjóð

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands. mbl.is

Læknafélag Íslands hefur nú hafið undirbúning við stofnun verkfallsjóðs. Ályktun þess efnis var samþykkt á nýafstöðnum aðalfundi félagsins. 

Þorbjörn Jónsson segir ástæðuna vera óánægju lækna með kjör sín. „Það  kom fram tillaga um stofnun verkfallssjóðs á fundinum, og læknar hafa náttúrulega lengi verið óánægðir með kjör sín og brottflutning lækna auk þess sem íslenskir læknar erlendis eru ekki að skila sér aftur hingað,“ segir Þorbjörn. 

Samningar lækna losna þann 1. febrúar 2014. Við erum farnir að undirbúa okkar kröfugerð, en samningsviðræðurnar eru ekki hafnar. Ef til verkfalls myndi koma, yrði það ekki fyrr enn á næsta ári þegar búið væri að láta reyna á samningsviðræður og ljóst að ekki yrði komið til móts við kröfur okkar.“ 

Þorbjörn segir samstöðu meðal lækna ríkja um það að umtalsverðar kjarabætur séu nauðsynlegar. 

„Læknar eru sammála um það að það þarf umtalsverðar kjarabætur til þess að snúa þessu við og koma í veg fyrir frekari læknaflótta. Svo verður að örva það að læknar komi hingað til lands þegar þeir eru búnir með nám. Nú eru liðin 5 ár frá hruni, sem er mikill tími. Það er útlit fyrir að við gætum misst út heila kynslóð af læknum og það er auðvitað mjög slæmt fyrir íslenska heilbrigðiskerfið,“ segir Þorbjörn.

<span><br/></span> <span><br/></span>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert