„Við höfum engar áhyggjur,“ sagði S. Björn Blöndal sem lýsti því yfir á stofnfundi Bjartrar framtíðar í Reykjavík að hann hafi áhuga á að taka sæti á lista flokksins í næstu sveitarstjórnarkosningum. Björn svaraði því hvort hann óttaðist að fylgi Besta flokksins færðist ekki yfir til nýja flokksins.
Eins og fram hefur komið hefur Jón Gnarr ákveðið að segja skilið við stjórnmálin eftir þetta kjörtímabil og tilkynnti hann um leið að Besti flokkurinn myndi ekki bjóða fram að nýju. Hins vegar myndi hann eiginlega renna inn í Bjarta framtíð. Spurður að því hvort hann telji að persónufylgi Jóns Gnarr fylgi ekki með þegar Besti flokkurinn rennur inn í Bjarta framtíð sagðist Björn Blöndal, sem er aðstoðarmaður Jóns, ekki hafa áhyggjur af því. „Áhyggjur hafa aldrei leyst neinn vanda.“ Flokkurinn sé valkostur og fólk kjósi það sem það telur best. Hann segist þó gera ráð fyrir að flokkurinn nái 20-40% fylgi.
Strax eftir hádegið hélt Björt framtíð í Reykjavík stofnfund sinn. Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Bjartrar framtíðar, sagði að um stóran dag væri að ræða sem búið væri að bíða lengi eftir. Hún lýsti þessu eins og hjón væru búin að ákveða að skilja en ekki segja börnunum frá því. „En það er búið núna. Jón er búinn að ákveða að taka ekki þátt í vor og það var góð ákvörðun, finnst mér. Hann skilar gríðarlega fallegu starfi og bjó til mjög stórt pláss fyrir okkur hin til að hreyfa okkur í. Ég er honum þakklát fyrir það.“
Heiða sagði að Besti flokkurinn væri ekki stjórnmálaflokkur heldur hugarástand. Því hafi verið ákveðið að stofna pólitískan arm hans, Bjarta framtíð. Nú eigi Björt framtíð ekki aðeins sex manna þinghóp heldur vinni hún að því að bjóða fram í nokkrum sveitarfélögum næsta vor. Sú vinna er þó á frumstigi.
Björn sagði að næstu skref hjá Bjartri framtíð í Reykjavík verði þau að opna flokkinn upp á gátt, stofna stjórn og velja í nefnd sem hafi það hlutverk að stilla á lista fyrir komandi kosningar. Hann sagði að borgarfulltrúar Besta flokksins stæðu heils hugar á bak við þetta verkefni og þeir verði allir með á einn eða annan hátt.
Einhverjir verði á lista, sumir kannski aftar en áður, og aðrir sýni stuðning á annan hátt. „Nú náum við að láta þetta renna saman og það er mikið gleðiefni.“
Meðal þeirra borgarfulltrúar sem gáfu það út að þeir myndu gefa kost á sér er Einar Örn Benediktsson sem sagðist ætla að taka 8. sæti á lista, baráttusætið. Nái Björt framtíð í Reykjavík hreinum meirihluta væri þá einboðið að hann verði borgarstjóri.