Óvíst með björgunarlaun vegna Fernöndu

Varðskipið Þór slekkur eld í flutningaskipinu Fernanda.
Varðskipið Þór slekkur eld í flutningaskipinu Fernanda. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar eiga rétt á björgunarlaunum samkvæmt lögum, líkt og aðrir sjófarendur. Þess eru dæmi að björgunarlaun hlaupi á tugum milljóna króna, eins og raunin varð í fyrra þegar rúmar 140 milljónir voru greiddar fyrir björgun flutningaskipsins Ölmu, fyrst og fremst vegna verðmæti farmsins.

Óvíst er hver niðurstaðan verður með flutningaskipið Fernöndu sem varðskipið Þór dregur nú til hafnar eftir rúmlega sólarhrings björgunaraðgerðir. Enginn farmur var um borð í skipinu þegar eldurinn kom upp í gær og er ljóst að skipið er mikið skemmt og líklega ónýtt.

Eigendur skips og farms eru ábyrgir fyrir greiðslu björgunarlauna, í hlutfalli við verðmæti þess sem var bjargað og er venja að miða við markaðsverð skipsins. Oftar en ekki enda björgunaraðgerðir með málaferlum um launin.

Björgun mannslífa ekki metin til fjár

Hugsunin með björgunarlaunum er sú að hvetja til björgunar, því slíkum aðgerðum fylgir jafnan töluverð áhætta. Björgun mannslífa veitir þó ekki rétt til sérstakra launa enda er sjófarendum skylt samkvæmt alþjóðalögum að leitast við að bjarga mönnum úr hættu.

Í siglingalögum er gerður greinarmunur á eiginlegri björgun, þegar skip er í raunverulegri og yfirvofandi hættu s.s. vegna bruna eða strands, og hins vegar minni háttar björgun þegar skipið kemst ekki til hafnar af eigin rammleik án þess þó að teljast í yfirvofandi hættu. Þetta getur t.d. átt við þegar vélarbilun verður eða veiðarfæri festast í skrúfu.

Samkomulag er yfirleitt gert um þóknanir fyrir minni háttar bjarganir. Gildandi samningur er t.d. milli Landhelgisgæslu, Landssambands íslenskra útgerðarmanna og tryggingafélaga um þóknanir fyrir björgun fiskiskipa þegar hætta er ekki yfirvofandi.

Kostnaðarsamar björgunaraðgerðir

Lítill tími gefst hins vegar til samninga um þóknun þegar kemur að björgun vegna yfirvofandi hættu, eins og í gær þegar eldur kom upp um borð í flutningaskipinu Fernanda.

Tilkynnt var um vandræði skipsins klukkan 13:14 og voru lóðs- og björgunarskip Landsbjargar þá strax kölluð út. Kortéri síðar voru báðar þyrlur Gæslunnar kallaðar út og einni og hálfri klukkustund eftir að eldsvoðinn var tilkynntur hafði öllum skipverjunum 11 verið bjargað.

Áður en yfir lýkur munu björgunaraðgerðir þó hafa staðið í a.m.k. einn og hálfan sólarhring, því barist var við eldinn í alla nótt og þegar þetta er skrifað er Þór á leið til Hafnarfjarðar með flutningaskipið í togi.

Ljóst er að kostnaður Landhelgisgæslunnar er umtalsverður, fyrst og fremst vegna eldsneytis fyrir varðskipið og báðar þyrlurnar. Spurningin er hvort Gæslan fái þennan kostnað til baka á formi björgunarlauna.

Umhverfistjón vegur þyngra en áður

Björgunarlaun ráðast af ýmsum þáttum, s.s af eðli og umfangi hættunnar sem björgunarmenn stóðu frammi fyrir, verðmæti þess sem var bjargað, hve langan tíma björgunaraðgerðirnar tóku og hversu vel þær tókust.

Meginreglan hefur lengi verið sú sem á ensku kallast „no cure - no pay“ en í því felst að ef engin verðmæti bjargast eru engin björgunarlaun greidd, óháð því hvað aðgerðirnar voru dýrar.

Þetta hefur þó aðeins verið að breytast á síðustu árum, vegna aukinnar áherslu á að koma í veg fyrir umhverfistjón. Ef skipið eða farmur þess telst hafa falið í sér hættu á umhverfistjóni þá geta björgunarmenn krafið eigandann um sérstaka þóknun sem er jafnhá kostnaðinum við björgunarvinnuna.

Ekki er ólíklegt að færa megi rök fyrir því í tilfelli sem þessu þar sem 2.500 brúttótonna flutningaskip, með tilheyrandi eldsneytismagn um borð, rak stjórnlaust skammt sunnan friðlandsins í Surtsey.

Björgunarlaun seinni tíma mál

Verði einhver afgangur af björgunarlaunum, eftir að greitt hefur verið fyrir eldsneyti og annað kostnað, þá skiptast þau þannig að áhöfnin fær 40% og útgerðin 60%. Í tilfelli Landhelgisgæslunnar rennur 60% hluturinn í s.k. Landhelgissjóð en fé úr honum er m.a. varið til að fjármagna tækjakaup gæslunnar.

Ásgrímur L. Ásgrímsson framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar segir að sem betur fer hafi umfangsmiklum björgunaraðgerðum á sjó fækkað á síðustu árum. Að sama skapi er fátíðara að háar upphæðir björgunarlauna renni í Landhelgissjóð.

„Hér á árum áður var til dæmis mun algengara að skip strönduðu, en þetta hefur breyst. Betri kort, betri siglingatæki og vélar og margt annað spilar inn í það. Tilkoma GPS til dæmis er stór hluti. Að geta alltaf verið með staðfestinguna í rauntíma, það breytir öllu,“ segir Ásgrímur. 

Aðspurður um hugsanleg björgunarlaun vegna Fernöndu segir Ásgrímur að það sé seinni tíma mál að skoða það. „Í þessu tilfelli hugsum við fyrst og fremst um það að bjarga mannskapnum. Síðan er að tryggja að ekki sé siglingahætta af skipinu, mengunarhætta og annað. Hitt er svo skoðað seinna.“

Brú flutningaskipsins stóð í ljósum logum í gær.
Brú flutningaskipsins stóð í ljósum logum í gær. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Eldur logaði um borð í Fernöndu.
Eldur logaði um borð í Fernöndu.
Varðskipið Þór við flutningaskipið Fernanda.
Varðskipið Þór við flutningaskipið Fernanda. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka