Fjármálaráðgjafar leggja alla jafna mikla áherslu það við fólk að leggja sem mest fyrir til að tryggja fjárhagslegt öryggi á efri árunum. Veitir ekki af viðbótarsparnaðinum þegar horfið er af vinnumarkaði því þeir sem ætla að stóla á lögbundna lífeyrissparnaðinn eingöngu mega eiga von á að ráðstöfunartekjurnar dragist skarplega saman.
En dæmið er ekki svona einfalt. Gjaldtaka dvalar- og hjúkrunarheimla á Íslandi er með þeim hætti að gengið getur mjög hratt á allar viðbótartekjur hins aldraða og í sumum tilvikum er vandséð hvernig það borgar sig að safna í sjóð til að njóta í ellinni.
Hjá Tryggingastofnun ríkisins fengust þær upplýsingar að ef íbúi á dvalar- eða hjúkrunarheimili hefur tekjur yfir 70.000 kr. á mánuði þá renna þær tekjur sem umfram eru til heimilisins. Að hámarki þarf íbúi á dvalar- eða hjúkrunarheimili að greiða allt að 326.979 kr. á mánuði fyrir vistina ef tekjurnar leyfa.
Rétt er að hafa í huga að fæstir fara á dvalar- eða hjúkrunarheimili strax og eftirlaunaaldri er náð. Í skýrslu velferðarráðuneytisins frá árinu 2011 kemur fram að árið 2010 bjuggu 78% fólks 80 ára og eldra enn heima, enda við nægilega góða heilsu.
Eftir stendur samt að ef til þess kemur að flytja þarf inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili er til lítils að hafa nörlað saman viðbótargreiðslum í lífeyrissjóð enda allar líkur á að allar umframtekjur hverfi beint til Tryggingastofnunar.
Áhugavert er að skoða hvaða leiðir eru færar til að fara í kringum gjaldtöku hjúkrunarheimilanna. Blasir t.d. við að verið gæti skynsamlegra að velja sparnaðarleið sem veitir ákveðið frelsi í því hvort, hvenær og þá hversu mikið er tekið út úr þeim potti sem búið er að safna. Tryggingastofnun gengur ekki á höfuðstól eigna og því fengi t.d. innistæða á bankabók eða í bankahólfi að vera í friði og kæmi hvergi fram sem tekjur ef sá sjóður er nýttur til skemmtilegra hluta. Sumar lífeyrissparnaðarleiðir bjóða líka upp á að sparnaðurinn sé greiddur út í heilu lagi eða að öllu eða stærstum hluta og aðeins hluti eða jafnvel ekkert af sparnaðinum greitt út í formi mánaðarlegra fastra greiðslna.
Þá gæti líka borgað sig að selja fasteignir og aðrar verðmætar eignir og geyma söluandvirðið í banka eða jafnvel koma eignum sem bera vexti, arð eða leigutekjur til erfingja. Segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hjá Landssambandi eldri borgara að hún viti til þess að fólk grípi til slíkra ráða til þess að láta tekjurnar af eignunum ekki hverfa upp í dvalar- og hjúkrunargjöld. Sjálfsagt þurfi að greiða erfðafjárskatt þegar eignirnar eru færðar til lögerfingja en skattur á fyrirframgreiddan arf er 10%.