Landsleikur Íslendinga og Króata í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Brasilíu á næsta ári hefur vakið athygli víða um heim. Bandaríska dagblaðið New York Times fjallar um leikinn á vef sínum í dag undir yfirskriftinni „Ísland byggir upp landslið sem vert er að fylgjast með“.
Eins og svo oft áður þegar fjallað er um Ísland á alþjóðavettvangi, þá vekur það athygli greinarhöfundar að svo fámenn þjóð eigi í raun möguleika á að komast á stórmót.
Í greininni, sem er eftir blaðamanninn Rob Hughes, segir að algjört knattspyrnuæði ríki nú á Íslandi. Tekið er fram að uppselt sé á leikinn og sérstaklega vikið að því að Knattspyrnusamband Íslands hafi ákveðið að hefja miðasöluna klukkan að fjögur að nóttu.
„Hver mun sigra [í leiknum á morgun] og í seinni leiknum sem fer fram á þriðjudag í Zagreb? Það er afar mjótt á mununum,“ segir Hughes.
Hann bendir á að landslið Króatíu búi yfir mun meiri reynslu og eru helstu stjörnur þeirra taldar upp; menn á borð við Luka Modric, sem leikur fyrir Real Madrid á Spáni, og Mario Mandzukic, sem leikur fyrir Bayern München í Þýskalandi.
Greinarhöfundur tekur þó fram að núverandi lið sé ekki það sama og náði þriðja sæti á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu árið 1998, þá með menn á borð við Davor Suker í liðinu. Nú áttu Króatar í basli í undankeppninni og sögðu þeir m.a. upp þjálfaranum Igor Stimac og við tók Niko Kovac.
Þegar vikið er að íslenska liðinu, er bent á að hinn „afslappaði Svíi“ Lars Lagerbäck hafi tekið að sér þjálfun liðsins í október 2011. Hann búi yfir 20 ára reynslu í heimi alþjóðaknattspyrnunnar, hafi m.a. þjálfað karlalandslið Svía og Nígeríu.
Hann hafi tekið þessa áskorun að sér því honum hafi líkað sú uppbygging sem hafi átt sér stað í U-21 árs liðinu, en þar voru margir hæfileikaríkir leikmenn að stíga fram á sjónarsviðið. Lagerbäck sá að þarna var möguleiki til að mynda lið sem gæti átt möguleika að komast á HM í knattspyrnu.
Fjallað er um leikmenn á borð við Eið Smára Guðjohnsen, sem sé reynsluboltinn í íslenska liðinu, 35 ára að aldri. Bent er á að Kolbeinn Sigþórsson, sem leikur fyrir Ajax í Hollandi, hafi tekið við hlutverki Eiðs sem aðalmarkaskorara landsliðsins, en hann hafi skorað alls 13 mörk í 19 leikjum. Þá kemur fram að lykilmaður liðsins á miðjunni sé Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Tottenham á Englandi.
„Aðferð Lagerbäcks er að byggja í kringum traustar stoðir, leikmenn sem setja liðið í fyrsta sæti. Og fyrirliði hans, Aron Einar Gunnarsson, virkar sem akkeri á miðjunni,“ segir í grein Hughes.
Hann bendir á að ef leikskipulagði sé ekki að ganga upp hjá Króötum í leiknum á morgun, þá geti nýi þjálfari liðsins leitað til reynslumikilla markaskorara á varamannabekknum, manna á borð við Ivica Olic og Eduardo til að styrkja leik liðsins.
„Ísland verður þá að vona að leikurinn sé þeim í hag. Enginn mun sofa í Reykjavík verði það raunin; teitið mun halda áfram og á meðal fólks sem aldrei virðist sofa,“ segir í lok umfjöllunarinnar.