Um hálftíma eftir að vél frá Icelandair fór í loftið frá Glasgow-flugvelli á leið til Íslands í dag kviknuðu viðvörunarljós í mælaborði og flugstjóri ákvað að snúa vélinni aftur til Glasgow. Á leiðinni drapst á einum hreyfla vélarinnar, að sögn Magnúsar Agnars Magnússonar sem var farþegi um borð í vélinni. Vélin er nú lent í Glasgow heilu og höldnu.
„Flugstjórinn tilkynnti okkur að við þyrftum að snúa við þar sem einhver ljós hefðu kviknað og þeir vildu snúa til baka til Glasgow til að kanna það betur,“ segir Magnús Agnar. Nokkrum mínútum seinna kom önnur tilkynning. „Þá segir hann að drepist hafi á einum hreyfli vélarinnar.“
Magnús segir að fólk hafi verið „í smágeðshræringu“ en að flugfreyjurnar og flugmennirnir hafi útskýrt málið mjög vel. „Þau sögðu að þetta væri mjög einfalt, þetta væri búið að æfa vel og að vélinni yrði einfaldlega lent.“
Magnús segir að ekkert er viðkemur flugi vélarinnar hafi bent til þess að eitthvað væri að. Vélin hefði verið stöðug og lendingin gengið mjög vel. Hann segir að gott hafi verið að finna fast land undir fótum. „Í smátíma skipti leikurinn við Króatíu ekki máli,“ segir hann og hlær en hann starfar sem umboðsmaður fyrir knattspyrnumenn.
Hann segir að fólk hafi haldið ró sinni allan tímann og að flugfreyjurnar og flugmaðurinn hafi staðið sig frábærlega.
Nú bíða farþegarnir frekari fregna á flugvellinum í Glasgow.