Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður eigenda VIP Club við Austurstræti, hefur lagt fram kæru á hendur lögreglu vegna aðgerða á staðnum. Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is. Kampavínsklúbbnum var lokað fyrir tveimur vikum þar sem hann hafði ekki rekstrarleyfi og bráðabirgðarekstrarleyfi hans var runnið út. Staðurinn var opnaður á ný sl. fimmtudag en lokað af lögreglu daginn eftir, líkt og RÚV greindi frá fyrst fjölmiðla á laugardagskvöld.
Í kærunni kemur fram að kæran sé lögð fram á hendur embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ólögmæta rannsóknaraðgerð með notkun tálbeita og fyrir húsbrot.
Þar segir að samkvæmt lögregluskýrslu frá 11. október sl. hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sent fimm lögreglumenn á veitingahúsið VIP Club í því skyni að kaupa vændi. Lögreglumennirnir hafi ekki haft erindi sem erfiði, þrátt fyrir að hafa samkvæmt starfsfólki staðarins borið bæði fé og eiturlyfið kókaín á starfsfólkið gegn kynlífsþjónustu, auk þess sem lögreglan hafi eytt 800.000 króna í kaup á kampavíni og samverustundir með starfsfólki.
Í kærunni segir að tálbeituaðgerð þessi feli í sér brot á 70. og 71 gr. stjórnarskrár, 6 gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 2. gr. 1., 2. og 3 tl. 1.mgr. 3. gr reglna um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála.
„Ástæðan fyrir aðgerðinni var umsókn umbjóðanda míns um rekstrarleyfi (...), en ekki grunur um refsiverða háttsemi,“ segir í kærunni og segir Vilhjálmur tilgang aðgerðarinnar því ólögmætan. Aðgerðin hafi beinst gegn starfsfólki veitingahússins, þ.e. reynt hafi verið að lokka starfsfólkið til þess að selja vændi, sem er refsilaust samkvæmt íslenskum lögum. Reynt hafi verið að kalla fram refsiverða háttsemi sem annars hefði ekki átt sér stað, segir í kærunni.
Vilhjálmur fer fram á að starfsmönnum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem beri ábyrgð á aðgerðinni verði refsað lögum samkvæmt.
Vilhjálmur sagði í samtali við mbl.is að Ríkisskattstjóri, Samtök atvinnulífsins og aðrir lögbundir umsagnaraðilar hafi tekið starfssemi staðarins út í haust. Ekkert athugavert hafi komið fram við úttektirnar.