Stofnuðu lífi vegfarenda í háska

Úr safni.
Úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Tveir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir að þreyta kappakstur á Hafnarfjarðarvegi í september 2011. Mennirnir eru sakaðir um að hafa raskað umferðaröryggi með ofsaakstri og stofna lífi vegfarenda í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt. Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Ríkissaksóknari ákærði mennina fyrir umferðar- og hegningarlagabrot, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 5. september 2011 þreytt kappakstur norður Hafnarfjarðarveg að Fífuhvammsvegi við Kópavogslæk í Kópavogi án aðgæslu langt yfir leyfilegum hámarkshraða.

Óku á 174 km hraða

Fram kemur í ákærunni að þeir hafi ekið með allt að 174 kílómetra hraða á klukkustund, en tekið er fram að mögulegur hámarkshraði hafi verið 189 km á klukkustund. Bent er á að á umræddum kafla er leyfður hámarkshraði 80 kílómetrar á klukkustund.

Þá kemur fram, að annar mannanna hafi verið án öryggisbeltis og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa sljóvgandi og deyfandi lyfja. Allt með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á bifreiðinni sem rann með hliðarskriði, rakst í kjölfarið á ljósastaur, fór í loftköstum um 120 metra leið og hafnaði loks utan vegar austan Hafnarfjarðarvegar eftir ítrekaðar veltur.

„Ákærðu röskuðu þannig umferðaröryggi á alfaraleið og stofnuðu á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu vegfarenda í augljósan háska,“ segir orðrétt í ákærunni.

Brot þeirra teljast m.a. varða við 168. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir: „Ef maður raskar öryggi járnbrautarvagna, skipa, loftfara, bifreiða eða annarra slíkra farar- eða flutningatækja, eða umferðaröryggi á alfaraleiðum, án þess að verknaður hans varði við 165. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum“.

Neita sök

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar. Tekið skal fram að ákæruvaldið hafi ekki gert grein fyrir refsisjónarmiðum í málinu enn sem komið er.

Málið hefur ekki verið dómtekið því aðalmeðferðinni var frestað í gær. Henni verður framhaldið 19. desember nk. 

Báðir mennirnir hafa neitað sök 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka