„Þetta er alvöru óveður“

„Það er einfalt að lenda í vandræðum ef menn eru …
„Það er einfalt að lenda í vandræðum ef menn eru á ferð þar sem búið er að vara fólk við að vera á ferðinni,“ segir deildarstjóri almannavarna. mbl.is/Ómar

„Það er ekki útlit fyrir að það verði neitt ferðaveður seinni partinn í dag og á morgun á Vestfjörðum, jafnvel á Vesturlandi, á Norðurlandi og Norðausturlandi. Svo er heldur ekkert gott veður á Suðausturlandinu, í Öræfunum og þar um kring, þar er að koma vindstrengur inn á landið og það gæti orðið óveður þar,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar.

Hann hvetur landsmenn til að fylgjast grannt með öllum veðurtilkynningum sem berast frá Veðurstofu Íslands, Vegagerðinni og almannavörnum.

Margir flýttu för í gær vegna veðurs

Þrátt fyrir að jólahátíðin sé að ganga í garð og margir hafa marg á prjónunum þá er ljóst að veðurspáin er slæm, sérstaklega um landið norðan- og austanvert yfir hátíðirnar. Það fer vart á milli mála að það mun setja strik í ferðaáætlanir margra og því hvetur Víðir landsmenn til að fara að öllum með gát og séu ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, þá er þetta alvöru óveður og það er einfalt að lenda í vandræðum ef menn eru á ferð þar sem búið er að vara fólk við að vera á ferðinni. Þess vegna byrjuðum við að gefa út þessar viðvaranir snemma til þess að fólk sem ætlaði að ferðast á milli landshluta gæti flýtt ferðum. Það eru margir sem gerðu það í gær,“ segir Víðir. 

Vegir á Vestfjörðum munu lokast í dag

Víðir segir að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar þá sé ljóst að vegir á Vestfjörðum munu lokast vegna veðurs í dag. „Mikilli snjókomu er spáð og einhverjum vegum verður lokað vegna snjóflóðahættu. Það mun alveg augljóslega hafa áhrif fljótlega upp úr hádegi í dag og síðan áfram næsta sólarhringinn,“ segir Víðir. 

Hann bætir því við að almannavarnarnefndin á Ísafirði hafi t.d. gefið það út í gær að allt benti til þess að vegurinn á milli Ísafjarðar og Súðavíkur myndi lokast upp úr hádegi í dag. „Svo lokast þessir fjallvegir mjög fljótt ef þessi ákafa úrkoma verður með þessu,“ segir Víðir. 

Hann segir að menn megi gera ráð fyrir því að það verði erfitt að komast á milli þéttbýliskjarna. „Það er lítið vit í því að plana slík ferðalög eftir hádegi í dag,“ segir.

Hann bætir við að svo muni vonskuveðrið færast yfir á Norðurland. „Nyrst á Tröllaskaganum, á Siglufirði og Ólafsfirði, þar verður strax í dag töluvert mikill vindur og úrkoma. Svo færist þetta meira inn á Norðurlandið á morgun og annað kvöld.“

Fólk verður að taka mark á veðurtilkynningum

„Veðurstofan, Vegagerðin og við ætlum að vera á vaktinni að miðla upplýsingum, hvar vegir eru að lokast og annað slíkt. Fólk verður að fylgjast vel með,“ segir Víðir.

Það er hins vegar ekki nóg að fólk fylgist með, segir Víðir.

„Fólk verður að taka mark á þeim [tilkynningum um veður og færð á vegum]. Það er enginn að reyna að hræða fólk eitthvað að óþörfu. Það er verið að tala um hlutina eins og þeir eru og tryggja öryggi fólks. Það er mjög mikilvægt að menn hlusti á það sem verði sagt og fara eftir því.“

Að lokum bendir Víðir á, að nokkuð sé um það að fólk fari inn á erlenda veðurvefsíður og reyni að bera spárnar saman við þær íslensku. „Þegar svona veður er, þá eru það veðurfréttatímarnir sem lang best er að hlusta eftir og tilkynningar frá Veðurstofunni og Vegagerðinni.“ 

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg verður bakvakt á landsvísu yfir hátíðirnar. Þeir hafa fengið senda ítarlegri veðurspá heldur en venjulega sem voru sendar til svæðistjórna á þeim stöðum þar sem versta veðrinu er spáð. 

Viðvörun frá Vegagerðinni og Almannavörnum

„Í dag, Þorláksmessu, gengur í norðaustan storm á Vestfjörðum og á Ströndum með slyddu, en síðar snjókomu.

Spáð er norðan hvassviðri eða -stormi (vindhraða 15-23 m/s) víða um land á morgun aðfangadag, jóladag og fram á annan í jólum.  Veðrinu fylgir talsverð snjókoma og skafrenningur N- og A-lands og því ekkert ferðaveður á þeim slóðum.

Dagana þar á eftir má búast við áframhaldandi norðaustanátt með éljum fyrir norðan og austan og er fólki bent á að fylgjast vel með fréttum af veðri og færð áður en farið er að stað.

Veðurstofan vill taka fram, af gefnu tilefni, að taka þarf sjálfvirkum spám með fyrirvara þar sem þær ná illa að sýna hve slæmt veðrið geti orðið.  Textaspár og útvarpslestur ásamt veðurfréttum í sjónvarpi eru þeir miðlar sem fólk ætti að fylgja.

Veðurspá: Norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum, suðvestan 5-10 S-til, en annars hæg breytileg átt.  Slydda eða snjókoma með köflum, en þurrt að kalla SA-lands.  Hvessir á NV-verðu landinu í dag, 18-25 m/s og snjókoma þar seinnipartinn.  Mun hægari vindur og dálítil slydda eða snjókoma annars staðar, en úrkomulítið á SA- og A-landi.  Vaxandi norðaustanátt á öllu landinu í kvöld og nótt, 15-25 á morgun og snjókoma eða él fyrir norðan, en þurrt að kalla syðra.  Frost 1 til 5 stig til landsins, en víða frostlaust við ströndina.

Vegagerðin vekur athygli á að vegna snjóflóðahættu má búast við að veginum um Ólafsfjarðarmúla verði lokað upp úr kl.15:00 í dag og óvíst er um hvort opnað verði aftur fyrr en eftir jól.

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er opinn en ef veðurspá gengur eftir má búast við að honum verðe lokað undir kvöld vegna snjóflóðahættu, staðan verður metin kl.17:00 í dag.  Óvíst er hvenær vegurinn verður opnaður aftur ef af lokun verður.

Eins er vakin athygli á að vegna veðursins gætu aðrir vegir lokast á Vestfjörðum og vestantil á Norðanlandi.“

Að sögn Víðis má búast við að það verði erfitt …
Að sögn Víðis má búast við að það verði erfitt að komast á milli þéttbýliskjarna á Vestfjörðum og um landið norðan- og austanvert. mbl.is/Árni Sæberg
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna. mbl.is/Júlíus
Nú sem fyrr eru björgunarsveitir á landsvísu til taks.
Nú sem fyrr eru björgunarsveitir á landsvísu til taks. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert