Árið sem nú er að líða var það kaldasta á þessari öld á Suðvesturlandi en annars staðar á landinu var lítillega kaldara eða svipaður hiti og var 2005 til 2011. Þetta kemur fram í yfirliti yfir tíðarfar ársins 2013 á vef Veðurstofunnar.
Þrátt fyrir þetta var hitastigið á landinu 0,4 til 1,0 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og var óvenjulega hlýtt fyrstu tvo mánuði ársins. Í Reykjavík var árið það átjánda í óslitinni röð þar sem árshitinn er yfir meðallagi og það fimmtánda á Akureyri.
Margir voru óánægðir með sumarveðrið á suðvesturhorninu en úrkoma var langt yfir meðallagi í öllum mánuðum frá júní til og með september. Á Akureyri var úrkoman hins vegar fimmtungi yfir meðallagi og er það tólfta árið í röð sem úrkoman fer yfir meðallag áranna 1961 til 1990.