„Erfiðleikarnir í skólakerfinu eru vissulega margir, en það er margt gott að gerast,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir, fræðslustjóri og stofnandi Hjallastefnunnar. „Mesta sóknarfærið í grunnskólakerfinu á Íslandi í dag er að stórauka frelsi skólanna, hvort sem er sjálfstætt starfandi skóla eða opinberra. Hverjum skóla verði frjálst að setja sína eigin stefnu og það er grundvallaratriði að kennarasamningarnir verði opnaðir þannig að það verði ekki mínútutalning sem stjórnar kennslunni.“
Þetta segir Margrét Pála í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Viðtalið er hluti ítarlegrar umfjöllunar blaðsins um málefni grunnskólanna, sem birt hefur verið undanfarna daga. Í dag er rætt við fólk úr ýmsum áttum um hvar sóknarfærin liggi í íslenska grunnskólakerfinu.
Margrét Pála segir að mikilvægt sé að mennta- og menningarmálaráðuneytið veiti skólum meira frelsi við að ákvarða hversu mikill tími fari í kennslu hverrar námsgreinar. „Á meðan skólarnir eru njörvaðir niður í gamalt 40 mínútna kennslustunda fyrirkomulag þar sem menntamálaráðuneytið ákveður hvað á að kenna mikið af hverju, þá skapast aldrei það frelsi að skólarnir geti gert sitt besta.“
Að mati Margrétar Pálu er of mikil áhersla lögð á vægi einstakra námsgreina á kostnað þverfaglegrar vinnu. „Það er löngu tímabært að við förum að hugsa öðruvísi, að við lítum á námið sem heild en ekki hólfað niður. Að þjálfa börn í sveigjanlegum vinnubrögðum, samvinnu, hjálpsemi og náungakærleika.“
Hún segir það allt of oft gleymast að börnin sem sitji á skólabekk í dag verði á vinnumarkaði í framtíðinni. „Ég ætla að fullyrða að 65% af þeim starfsheitum sem þau munu bera eru ekki einu sinni til í dag. Fyrir hvað erum við að þjálfa þau? Hvert það skólakerfi sem byggir á þekkingu dagsins í dag, eða því sem verra er – á þekkingu gærdagsins eins og við gerum – mun aldrei skila þeim árangri sem við viljum. Við erum hlekkjuð við gamlar forsendur, gamalt kerfi.“
Eitt af því sem Margrét Pála myndi vilja sjá meira gert af í íslenskum grunnskólum er þjálfun í frumkvöðlahugsun og skapandi verkum. „Að börnin skapi sjálf það sem þau fást við í stað þess að taka endalaust við lausnum. Að hvetja þau til að fara út fyrir rammann.“
Heldurðu að það sé grundvöllur fyrir þessum breytingum í þjóðfélaginu og hjá yfirvöldum menntamála? „Biðlistarnir í skólana okkar [Hjallastefnuskólana] sýna að það er grundvöllur meðal foreldra. Það er líka gríðarlegur vilji hjá grasrótinni, hjá kennurum sjálfum, að breyta núverandi kerfi.“
Ef grunnskólarnir hefðu þetta aukna frelsi, myndi það ekki leiða til þess að börn fengju mismunandi og jafnvel misgóða menntun eftir skólum? „Vandi íslenska skólakerfisins hefur í gegnum tíðina verið einsleitni, við viljum hafa skólana eins og trúum því að þannig tryggjum við jafnrétti. En í mörgum tilvikum þýðir það að þeir eru jafnlélegir. Hvað heldur fólk að myndi gerast ef það stæði ekki í bók að það ætti að kenna íslensku í tiltekinn tímafjölda á viku? Að engin íslenska yrði kennd? Ef skólarnir fengju frelsi til að ákveða þetta sjálfir, myndum við fyrst sjá eitthvað nýtt og kröftugt gerast. Ef kennarar, skólastjórnendur, börn og foreldrar fengju tækifæri til að byggja upp sitt skólasamfélag á sinn hátt og tökunum væri sleppt á öllum þessum stóru þáttum sem við látum stjórna skólastarfinu, myndu stórkostlegir hlutir gerast. Ég held að börn yrðu enn betur læs, enn betur undirbúin í stærðfræði en þau eru nú. Ég vona bara að ráðamenn þori að stíga þetta skref.“