Lýður og Bjarnfreður dæmdir í fangelsi

Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is

Hæstiréttur hefur dæmt Lýð Guðmundsson í átta mánaða fangelsi, þar af fimm mánuði skilorðsbundið, og Bjarnfreð Ólafsson í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið, fyrir brot gegn lögum um hlutafélög. 

Fimm dómarar við Hæstarétt kváðu upp dóminn.

Í maí í fyrra dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Lýð, sem er fyrrverandi stjórnarformaður Exista, til að greiða tvær milljónir króna í sekt fyrir brot á hlutafélagalögum en Bjarnfreður Ólafsson lögmaður var sýknaður í sama máli, sem embætti sérstaks saksóknara höfðaði á hendur þeim haustið 2012.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, sem féll í dag, að Lýður og Bjarnferður hafi verið sakfelldir fyrir brot gegn lögum um hlutafélög. Lýður með því að hafa, sem stjórnarmaður í BBR ehf., brotið gegn ákvæðum laganna um greiðslu hlutafjár með því að greiða Exista hf. minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í félaginu, en BBR ehf. skyldi greiða fyrir hlutina með 1 milljarði hluta í Kvakk ehf., sem metnir höfðu verið á 1 milljarð króna.

Var háttsemi Lýðs talin varða við 1. mgr. 16. gr. laga um hlutafélög.

Bjarnfreður var sakfelldur fyrir brot gegn 1. tölulið 1. mgr. sömu laga með því að hafa sent villandi tilkynningu til fyrirtækjaskrár þar sem kom fram að hækkun á hlutafé Exista, að nafnverði 50 milljarðar króna, hefði að fullu verið greidd til félagsins.

Var refsing Lýðs ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en fullnustu 5 mánaða af henni var frestað skilorðsbundið í 2 ár. Var refsing Bjarnfreðar ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en fullnustu 3 mánaða af henni var frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Þá var Bjarnfreður sviptur réttindum til þess að vera héraðsdómslögmaður í 1 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert