Lára V. Júlíusdóttir, fv. formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, ræddi við Má Guðmundsson um launakjör í mars 2009, eða áður en umsóknarfrestur um starf seðlabankastjóra rann út.
Lára kvaðst aðspurð ekki muna eftir þessu samtali en Már greinir frá því í bréfi til hennar í júní 2009. Ekki náðist í Má vegna málsins.
Frestur til að sækja um stöðuna rann út 31. mars 2009 og var matsnefnd skipuð í kjölfarið til að meta hæfi umsækjenda. Fimmtán sóttu um starf seðlabankastjóra og sextán um starf aðstoðarseðlabankastjóra. Voru átta taldir uppfylla menntunarkröfur í starf seðlabankastjóra, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt einum þessara átta umsækjenda var hann ekki beðinn um gögn, né var hann kallaður til viðtals. Þá bar laun ekki á góma. Annar umsækjandi af þeim átta sem uppfylltu kröfurnar staðfesti að ekki hefði verið rætt um laun.