Duttu í kokteilblandarann

Hvað á sjálftístandi kokteilblandari sameiginlegt með jafnvægisfestingu fyrir GoPro-myndavél á þyrlu og sjálfvirkt gróðurhús. Kannski ekki margt við fyrstu sýn en mbl.is kynnti sér málið.

Nánari athugun leiddi í ljós að um er að ræða prófverkefni verkfræðinemenda við Háskóla Íslands sem sóttu áfangann Tölvustýrður vélbúnaður. 

Mbl.is komst að því að sjálftístandi kokteilblandari sé tæki sem blandar kokteila eftir pöntunum í gegnum iPad app. Þegar kokteill er blandaður tekur iPadinn mynd af viðkomandi og tístir henni á Twitter ásamt upplýsingum um hvað viðkomandi pantaði sér. Núverandi útgáfa tækisins býður upp á sjö mismunandi kokteila en einfalt er að auka það með því að stækka tækið.

Martröð barþjóna?

Hönnuðir tækisins eru þeir Gísli Guðlaugsson, Guðmundur Egill Bergsteinsson og Sölvi Logason.

„Við vorum fyrst að spá í að gera sjálfvirka vöfflugerðarvél. En hættum við það og duttum frekar í kokteilblandarann,“ segir Gísli.

Sölvi segir að með tækinu geti menn drukkið fullkomna kokteila í partíum og aðspurður telur hann að tækið eigi sé prýðilegt til útrásar. „Er ekki alveg markaður fyrir þetta? Ég myndi halda það,“ segir Sölvi.

Guðmundur tekur undir það og segir: „Barþjónarnir verða kannski ekkert ánægðir með það en við verðum bara að hafa það,“ segir hann.

Tilraunagróðurhús og myndavél sem er ávallt í réttri stöðu

Kokteilblandarinn var hins vegar ekki eina tækið sem var kynnt í dag.

Fyrrnefnd jafnvægisfesting er sérstök festing fyrir GoPro-myndavél á þyrlu. Við festinguna eru tengdir tveir servo-mótorar sem taka við gildum frá hornhröðunarnema sem einnig er staðsettur á festingunni. Mótorarnir leiðrétta stöðu myndavélarinnar á sitt hvorum ásnum í samræmi við þessi gildi og er hún því alltaf í réttri stöðu. Til að minnka hristing frá mótorum þyrlunnar var búin til samloka úr svampi og frauði sem fest var á milli þyrlunnar og festingarinnar.

Í sjálfvirka gróðurhúsinu eru mælingar á hitastigi og rakastigi í lofti og mold. Vökvunar- og loftræstikerfi sér um að viðhalda raka og hita sem hámarkar vöxt. Síðan er stilling á ljósi til að örva vöxtinn á myrkrum tímum. Kerfið er sett upp fyrir tilraunargróðurhús sem er í smáum skala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert