Hvetja til matjurtaræktunar

mbl.is/Rósa Braga

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að leita eftir hugmyndum frá borgarbúum um auðar lóðir eða reiti þar sem þeir geta stundað matjurtarækt var samþykkt af borgarstjórn í dag.

Á fundi borgarstjórnar sagði Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, að það væri hægt að benda á ýmsa staði fyrir borgarbúskap á reitum sem lengi hefðu staðið auðir og verið fáum til gagns, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Væri ekki betra að á Alþingisreitnum væri fallegur kálgarður eða jarðaberjaræktun í stað berangurslegrar lóðar við Tjarnargötuna þar sem ekkert er lengur að sjá? Og það mætti nefna Vatnsmýrina fyrir neðan stúdentaíbúðirnar við Oddagötu sem er kjörið svæði til að rækta grænmeti og væri auðvitað gaman að vita hvort stúdentar vildu ekki prófa sig í vistvænni matjurtaræktun,“ sagði hann og bætti við:

„Á Stjórnarráðsreitnum er fullt af auðum lóðum sem sennilega verður aldrei byggt á en Stjórnarráðið hefur ekki viljað sleppa. Þarna væri tilvalið að gefa embættismönnum tækifæri til þess að rækta sinn garð og skreppa út í vinnuhléi til að vökva grænmetið sitt.“

Borgin bjóði upp á fræðslu

Jón Gnarr borgarstjóri sagði að það væri mjög góð hugmynd að opna fyrir matjurtagarða á Alþingisreitnum og ýmsum öðrum stöðum í borgarlandinu. Í sama streng tóku aðrir borgarfulltrúar sem samþykktu tillöguna samhljóða að lokinni umræðu. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig til að Reykjavíkurborg byði upp á fræðslu í matjurtaræktun á svölum fjölbýlishúsa. „Með tillögunni viljum við hvetja til sjálfbærrar nýtingar borgarlandsins, útivistar og heilbrigðra lifnaðarhátta,“ sagði Júlíus Vífill jafnframt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert