Hvítt yfir á höfuðborgarsvæðinu

Frá höfuðborgarsvæðinu í morgun.
Frá höfuðborgarsvæðinu í morgun. Mbl.is/Júlíus

Starfsmenn í hreinsunardeild Reykjavíkurborgar eru nú að ljúka við snjóhreinsun og söltun en hvítt var yfir höfuðborgarsvæðinu í morgun. Átta bílar fóru af stað í morgun og er verkinu nú að ljúka. 

Hálka, hálkublettir eða jafnvel snjóþekja eru á flestum vegum á Suður- og Vesturlandi. Þannig er t.d. hálka bæði á Hellisheiði og í Þrengslum. Snjóþekja er m.a. á Bröttubrekku, Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi en flughált er á Vatnaleið.

Á Vestfjörðum er einnig vetrarfærð og þæfingur bæði á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði eftir nóttina.

Verið er að kanna færð á Norðurlandi en þar éljar á köflum og ljóst að þar er víða einhver hálka eða snjór á vegum.

Hálka og hálkublettir eru á Mývatns- og Mörðudalsöræfum en vegir á Austurlandi eru þó víðast greiðfærir sem og með suðausturströndinni.

Meðan frost er að fara úr jörð þarf víða að banna allan akstur á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru. Þeir sem hyggja á fjallaferðir eru beðnir að kynna sér ástand á viðkomandi leiðum og virða akstursbann þar sem það er í gildi. Sjá nánar hér.

Vegna aurbleytu og/eða hættu á slitlagsskemmdum þarf sumsstaðar að takmarka ásþunga. Frekari upplýsingar má sjá með að því að smella hér eða í síma 1777.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert