Isavia lagði fram tilboð

mbl.is/Sigurgeir

Isavia lagði fram tilboð á fundi samninganefndar Félags flugvallarstarfsmanna (FFR) og ríkisins í dag, að sögn Kristjáns Jóhannssonar, formanns FFR. Hann segir að tilboðið hafi verið afar yfirgripsmikið og mun samninganefnd FFR fara yfir það um páskana.

„Þetta kallar á mikla yfirlegu og vinnu sem við ætlum að leggjast í á næstu dögum. Formlegur fundur verður ekki um helgina en við munum samt vinna í hópum innan okkar samninganefndar,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Svar muni liggja fyrir næsta þriðjudag.

Fundað var í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Kristján segir að enn sé langt í land en að viðræðurnar séu þó alls ekki að sigla í strand.

„Þetta er snúið, það er ekki hægt að neita því. Þetta eru margir hópar og krafa okkar er sú að kjör þeirra verði einfaldlega leiðrétt,“ segir hann. „En við leysum þetta á endanum. Ég trúi því.“

Flugvallarstarfsmenn lögðu niður störf á milli klukkan fjögur og níu að morgni 8. apríl. Næsta vinnustöðvun er boðuð 23. apríl og önnur 25. apríl. Ótímabundið verkfall hefst svo 30. apríl, hafi samningar ekki nást fyrir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert