Leikfélag Akureyrar í kröggum

Samkomuhúsið á Akureyri þar sem Leikfélag Akureyrar er til húsa.
Samkomuhúsið á Akureyri þar sem Leikfélag Akureyrar er til húsa. mbl.is/Sigurður Bogi

Engin leikverk verða sett á svið í Samkomuhúsinu á Akureyri á næsta leikári, vegna fjárhagsörðugleika Leikfélags Akureyrar. Þetta segir stjórn félagsins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem deilt er um fjárhagsgrundvöll félagsins, því fyrir 2 árum var öllum fastráðnum starfsmönnum sagt upp vegna óvissu um reksturinn.

Stjórn Leikfélags Akureyrar sendi frá sér yfirlýsingu nú fyrir stundu þar sem segir að ljóst sé að ekki sé hægt að halda úti starfsemi leikfélagsins „nema til komi leiðrétting á opinberum framlögum“. 

Bent er á að opinber framlög séu raunverulegur rekstrargrundvöllur félagsins, en þau hafi ekki hækkað að krónutölu í 10 ár, eða síðan 2004. Stjórnin segir að kostnaðaráætlanir félagsins hafi staðist undanfarin 2 ár, en það sem sé að sliga félagið sé skuldahali sem hvíli á rekstrinum eftir fjárhagslegar hremmingar þess fyrir þremur árum.

Stjórn leikfélagsins sér tækifæri í sameiningu við önnur menningarfélög á Akureyri, þ.e. menningarhúsið Hof og Sinfóníusveit Norðurlands. Þannig mætti nýta betur það fé sem stjórnvöld vilji leggja til menningarstarfsemi í bænum.

Leikfélagið hefur farið þess á leit við bæjarráð Akureyrar að samningur félagsins við bæinn verði tekinn til endurskoðunar. Tillagan fólst m.a. í því að fjárframlög leikársins 2014-15 yrðu greidd út fyrir áramót 2014, þannig að hægt yrði að frumsýna Lísu í Undralandi í október og greiða skuldir félagsins. Sömuleiðis að gengið yrði til samninga um sameiningu menningarfélaganna þriggja.

Bæjarráð Akureyrar hefur hafnað þessum tillögum. Stjórn leikfélagsins segir því ljóst að að óbreyttu verði ekki starfsemi í Samkomuhúsinu næsta vetur, leiksýningar ekki settar á svið né rekinn leiklistarskóli.

Sjá umfjöllun Morgunblaðsins frá apríl 2012: Að birta til undir brekkunni?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert