Rakel fréttastjóri RÚV

Rakel Þorbergsdóttir hefur verið ráðin fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Þröstur Helgason hefur verið ráðinn dagskrárstjóri Rásar 1, Frank Þórir Hall dagskrárstjóri Rásar 2 og Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri Sjónvarps. Andrea Róbertsdóttir verður mannauðsstjóri RÚV. Ný framkvæmdastjórn RÚV var kynnt á starfsmannafundi í dag. Fjórar konur voru ráðnar framkvæmdastjórar og fjórir karlar.

„Ég tel að þetta ferli hafi skilað okkur öflugu teymi með fjölbreytta reynslu og bakgrunn,“ segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri í tilkynningu. „Það var ánægjulegt að sjá hversu margir reyndir og hæfileikaríkir einstaklingar sóttust eftir því að gera nýja sýn um RÚV að veruleika. Í hópnum sem nú liggur fyrir er reynslumikið fólk héðan frá RÚV í bland við fólk sem kemur með ferska sýn að utan. Hlutfall milli kynja er nú í fyrsta skipti jafnt í nýrri framkvæmdastjórn RÚV sem ég tel sérstakt ánægjuefni. Ég hlakka til að takast á við uppbyggingu og eflingu Ríkisútvarpsins með þessum aflmikla hópi og öðru frábæru starfsfólki hér innandyra.“

Hér að neðan er listi yfir alla framkvæmdastjórnina ásamt upplýsingum um hvern og einn:

Rakel Þorbergsdóttir hefur verið ráðin fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Rakel er með BA-gráðu í stjórnmálafræði og diplóma í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í ljósvakafjölmiðlun (Broadcast Journalism) frá Emerson College í Boston. Rakel hefur fjórtán ára reynslu sem fréttamaður, vakstjóri og varafréttastjóri hjá RÚV en áður starfaði hún hjá Morgunblaðinu.

Þröstur Helgason hefur verið ráðinn dagskrárstjóri Rásar 1. Þröstur er með BA-gráðu í íslensku og meistaragráðu í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann hefur frá árinu 2009 stundað doktorsnám við sama skóla og verður doktorsvörn hans í sumar. Þröstur var ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins um átta ára skeið og hefur á undanförnum árum starfað m.a. sem stundakennari, þáttagerðarmaður og bókmenntagagnrýnandi.

Frank Þórir Hall hefur verið ráðinn dagskrárstjóri Rásar 2. Frank er með BA-gráðu í heimspeki og grísku frá Háskóla Íslands og meistaragráðu frá Konunglegu listakademíunni í Haag í nýmiðlun og tónlist. Hann hefur starfað sem tónlistarmaður um tuttugu ára skeið, samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda, dansverka og leiksýninga. Hann hefur einnig sinnt dagskrárgerð hjá RÚV á undanförnum árum og verið með dægurmálaþætti og tónlistarþætti. Frank hefur starfað sem listrænn ráðunautur við Borgarleikhúsið frá árinu 2008.

Skarphéðinn Guðmundsson hefur verið ráðinn dagskrárstjóri Sjónvarps. Hann gegndi því starfi einnig áður en framkvæmdastjórninni var sagt upp og stöðurnar auglýstar. Skarphéðinn er með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Skarphéðinn hefur starfað sem dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins frá árinu 2012, var áður dagskrárstjóri Stöðvar 2 frá árinu 2007 og upplýsingafulltrúi 365 miðla frá 2005. Hann starfaði áður á menningardeild Morgunblaðsins, sem blaðamaður og gagnrýnandi.

Anna Bjarney Sigurðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar, fjármála og tækni. Anna er viðskiptafræðingur með kandídatspróf af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá sama skóla. Hún var framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs hjá Landsbankanum og forstöðumaður útibúaþróunar. Áður starfaði hún hjá Búnaðarbanka Íslands/Kaupþingi um árabil, m.a. sem forstöðumaður áætlana og rekstrareftirlits.

Hildur Harðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri samskipta-, þróunar- og mannauðssviðs. Hildur er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í fjölmiðla- og samskiptafræðum frá London School of Economics og MBA-gráðu frá London Business School. Hildur hefur starfað sem markaðsstjóri Borgarleikhússins frá árinu 2010 en starfaði áður m.a. í um áratug hjá The Henley Centre, fyrst sem ráðgjafi og síðar sem aðstoðarframkvæmdastjóri.

Ingólfur Bjarni Sigfússon hefur verið ráðinn vef- og nýmiðlastjóri Ríkisútvarpsins. Ingólfur Bjarni sinnti starfinu einnig áður en útvarpsstjóri sagði allri framkvæmdastjórn RÚV upp og auglýsti stöðurnar að nýju. Ingólfur Bjarni er með meistaragráðu í samanburðarstjórnmálum, blaðamennsku og bandarískum fræðum frá Universität Leipzig. Ingólfur Bjarni hefur starfað sem vef- og nýmiðlastjóri frá árinu 2013 og var þar áður fréttamaður, vaktstjóri og varafréttastjóri hjá Ríkisútvarpinu frá 2006.

Margrét Magnúsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins. Margrét er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað sem lögfræðingur á lögfræðisviði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá árinu 2011. Þar hefur hún m.a. haft yfirumsjón með málefnum fjölmiðla, komið að þjónustusamningum við menningarstofnanir, gerð lagafrumvarpa og erlendum samskiptum, m.a. á vettvangi Evrópuráðsins.

Andrea Róbertsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri Ríkisútvarpsins. Hún er með BA-gráðu í félags- og kynjafræði og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Andrea hefur undanfarið ár starfað sem verkefnisstjóri hjá Hjallastefnunni en var áður forstöðumaður mannauðssviðs Tals frá árinu 2010-2013. Andrea hefur einnig víðtæka reynslu úr fjölmiðlum sem dagskrárgerðakona og framleiðandi.

Hér má sjá lista yfir alla umsækjendur um framkvæmdastjórastöðurnar.

Rakel Þorbergsdóttir.
Rakel Þorbergsdóttir.
Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1.
Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1. Árni Sæberg
Andrea Róbertsdóttir, mannauðsstjóri RÚV.
Andrea Róbertsdóttir, mannauðsstjóri RÚV. Árni Sæberg
Ingólfur Bjarni Sigfússon, nýmiðlastjóri RÚV.
Ingólfur Bjarni Sigfússon, nýmiðlastjóri RÚV.
Hildur Harðardóttir, framkvæmdastjóri samskipta-, þróunar- og mannauðssviðs.
Hildur Harðardóttir, framkvæmdastjóri samskipta-, þróunar- og mannauðssviðs. mbl.is/Styrmir Kári
Anna Bjarney Sigurðardóttir. framkvæmdastjóri rekstrar, fjármála og tækni.
Anna Bjarney Sigurðardóttir. framkvæmdastjóri rekstrar, fjármála og tækni. mbl.is
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins.
Margrét Magnúsdóttir skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins.
Margrét Magnúsdóttir skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins.
Frank Þórir Hall dagskrárstjóri Rásar 2.
Frank Þórir Hall dagskrárstjóri Rásar 2.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert