Skíða á daginn og rokka á kvöldin

Skíðaunnendur fá eitthvað fyrir sinn snúð um páskana því flest ef ekki öll helstu skíðasvæði landsins hafa opið yfir hátíðina. „Fyrri parturinn verður örugglega æðislegur,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, um færið í Bláfjöllum á morgun, en þá er opið frá 10-17.

Í dag opnar svæðið klukkan 14 og verður opið til 21 í kvöld. Spurður út í veðrið segir hann að staðan í dag líti ágætlega út. Það sé mjög háskýjað og útlit sé fyrir að það birti eitthvað nú síðdegis. Á morgun er hins vegar mun aftur á móti hvessa úr suðri seinni part dags. 

„Þeir sem vakna snemma á morgun geta átt von á því að fá fínan tíma,“ segir Einar varðandi skírdag. Hvað varðar aðra daga má búast við ágætu veðri. „Við fengum smá nýsnævi í nótt sem er frábært að fá,“ segir Einar og bætir við að færið verði mjög gott. Annað sé í höndum veðurguðanna.

Heimasíða Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins

Munar örfáum gráðum

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins á Hlíðarfjalli við Akureyri, segir að bæði veður og skíðafæri sé frábært í dag. Þar verður opið alla daga á milli 9 og 16 og að sögn Guðmundar er spáin þokkaleg fyrir næstu daga en þetta munar örfáum gráðum.

„Skíðasvæðin flest á Norðurlandi vilja ekki fá þessa suðvestanátt,“ segir Guðmundur og bætir við þær aðstæður verði heldur hvasst á fjöllum þó að veðrið í bænum geti verið ágætt.

„Suðvestanáttin þarf ekki nema að færast örlítið meira til suðurs að þá dettur veðrið niður og verður fínt,“ segir hann. Guðmundur tekur fram að að skíðaleið hafi verði búin til neðst í fjallinu sem liggur frá skíðahótelinu niður í bæ, en leiðin er 2,2 km. „Þó að sé rok hérna fyrir ofan þar sem skíðasvæðið byrjar þá er fínt að skíða hérna niður úr.“

Hvassviðrið gengur fljótt yfir

Heimasíða Hlíðarfjalls

Dagfinnur Ómarsson, forstöðumaður Skíðamiðstöðvar Austurlands í Oddsskarði, segir að svæðið verði opið um páskana á milli 10-17. Á fimmtudag og á laugardag verði svo kvöldopnun á milli 20-23 ef veður leyfir. 

Hann segir að veðrið sé fínt en annað kvöld sé spáð hvassviðri.

„Það kemur smá vindur en það á að ganga mjög fljótt yfir. Þannig að allir dagarnir líta mjög vel út í kortunum,“ segir Dagfinnur.

Heimasíða Oddsskarðs

Helgin mjög góð

Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar verður opið alla daga frá 10-17 en á morgun verður hins vegar opið frá 10-23. „Það er að vísu einhver leiðinda veðurspá,“ segir Gautur Ívar Halldórsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, í samtali við mbl.is.

Hann segir að samkvæmt spánni muni hvessa síðdegis á morgun. „Við höldum opnu eins lengi og við getum. Svo á hann að ganga niður á föstudagsmorguninn eða um hádegi á föstudag. Helgin verður mjög góð sýnist mér,“ segir Gautur.

Fjölmenni er nú í bænum í tengslum við tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. „Það er skíðað á daginn og rokkað á kvöldin,“ segir Gautur að lokum.

Heimasíða Skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar

Veðurstofan gefið út stormviðvörun

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörun sem gildir til kl. 18 á morgun en búist er við stormi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra seint á morgun.

Veðurhorfur um allt land næsta sólarhringinn eru eftirfarandi:

Vestlæg átt 5-10 metrar á sekúndu og él, en bjartviðri á Austurlandi. Norðan 5-13 í kvöld. Léttir til suðvestanlands, annars él. Hægari og þurrt í fyrramálið. Snýst síðan í vaxandi sunnanátt, 13-18 m/s síðdegis, en 18-23 um landið norðvestanvert annað kvöld. Slydda eða rigning eftir hádegi, en þurrt norðaustanlands fram á kvöld. Hiti 0 til 5 stig að deginum, en frost 0 til 8 stig í nótt, kaldast í innsveitum. 

Á föstudag er síðan spáð suðvestan 13-20 m/s og éljum, en heldur hægari og létti til á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast austast.

Á laugardag er gert ráð fyrir suðvestan 8-15 m/s. Léttskýjað norðaustan- og austanlands, annars él. Hiti 0 til 5 stig, en víða næturfrost.

Á sunnudag er síðan spáð sunnan- og suðvestanátt með skúrum eða éljum, en bjartviðri á norðaustanverðu landinu. Hiti 0 til 7 stig að deginum, hlýjast við NA-ströndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert