Skortur á hjúkrunarfræðingum komi til verkfalls

Hjúkrunarfræðingar að störfum.
Hjúkrunarfræðingar að störfum. Árni Sæberg

Tugir hjúkrunarfræðinema, sem ráðið hafa sig til vinnu á heilbrigðisstofnunum í næsta mánuði, gætu verið án starfsleyfis þegar þeir koma til starfa vegna verkfalls háskólakennara. Það getur leitt til aukins álags og skorts á hjúkrunarfræðingum í heilbrigðiskerfinu þegar sumarfrístími hefst. 

Þurfa að vera undir handleiðslu

Jóhanna Sigríður Sveinsdóttir, hjúkrunarfræðinemi, stefnir að því að útskrifast í vor ásamt um 150 nemendum í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.

Hún bendir á að tafir á útskrift geti leitt til aukins álags á heilbrigðisstofnanir. „Tugir eru t.d. búnir að ráða sig á Landspítalann. Hann býst við því að fá hjúkrunarfræðinga, en ekki hjúkrunarnema, til starfa. Á þessu er talsverður munur því hjúkrunarfræðinemi þarf alltaf að vera undir handleiðslu hjúkrunarfræðings, en hjúkrunarfræðingur getur verið sjálfstæður á vöktum,“ segir Jóhanna.

Hjúkrunarfræðingar sækja um hjúkrunarfræðingaleyfi hjá Landlækni eftir að prófum er lokið í háskólanum.

Mikill launamunur 

Háskólakennarar samþykktu að leggja niður störf á fyrirhuguðum próftíma, 25. apríl til 10. maí. Engar upplýsingar liggja fyrir um það hvernig prófatíð mun verða háttað eftir verkfalllið, komi til þess. „Svo þurfum við líka að bíða eftir útskriftinni,“ segir Jóhanna. 

„Ég hef heyrt það á samnemendum mínum að þeir hafi ekki áhuga á því að verja sumrinu í starfi sem hjúkrunarnemar. Þar spilar líka launamunur inni í,“ segir Jóhanna.

Jóhanna bendir á það að hjúkrunarfræðingar á heilbrigðisstofnunum fari í sumarfrí og það geti leitt til þess að skortur verði á starfsfólki.  Hjúkrunarfræðinemar þurfi eilíft að vera undir handleiðslu annars starfsmanns í stað þess að sinna þeim verkefnum sem til þarf. 

Jóhanna Sigríður Sveinsdóttir
Jóhanna Sigríður Sveinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert