Vilja að Vísir selji aflaheimildir

Vísir hf. ætlar að flytja alla starfsemi fyrirtækisins til Grindavíkur. …
Vísir hf. ætlar að flytja alla starfsemi fyrirtækisins til Grindavíkur. Vinnslur félagsins á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík verða lagðar niður. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vill að bærinn eigi milligöngu um að aflaheimildir verði keyptar af Vísi hf.

Á fundi bæjarráðs í morgun var lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar bæjarstjóra um atvinnumál á Þingeyri og hefur honum verið falið að senda stjórnendum Vísis bréf um kaup á aflaheimildum, að því er fram kemur í frétt á vef Bæjarins besta.

Í minnisblaðinu kemur fram að eftir að Vísir tilkynnti um lokun fiskvinnslunnar á Þingeyri hafi verið settur á laggirnar vinnuhópur á vegum bæjaryfirvalda og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og jafnframt hafi Byggðastofnun komið að starfi hans.

Aflaheimildirnar sem bærinn vill að verði keyptar af Vísi eru þær sem voru lagðar inn í Fjölni hf., sem var félag í eigu Vísis og fleiri aðila, að því er segir í fréttinni.

Ekki lagt til að bærinn kaupi aflaheimildirnar

„Þegar Vísir kom að Þingeyri árið 1999 var stofnað félagið Fjölnir hf. Það fór af stað með 500 milljóna króna hlutafé en því til viðbótar voru teknar 500 milljónir króna að láni og fyrir þetta keyptar aflaheimildir.

Í ljósi þess að til þessa samstarfs við Vísi var stofnað á þessum forsendum og til þess að styrkja byggð á Þingeyri má þykja sanngjarnt að Vísir selji þessar aflaheimildir aftur til þess aðila sem að vill hefja þarna starfsemi. Ekki er lagt til að bærinn kaupi þessar heimildir heldur hafi milligöngu og hugsanlega einhverja aðkomu að kaupunum,“ segir í minnisblaðinu. 

Aðgerðaráætlun starfshópsins er í þremur liðum. Auk þess að kaupa kvóta af Vísi er lagt til að Þingeyri fái úthlutað allt að 500 tonna sértækum byggðakvóta og að samkomulag verði gert við Vísi um eignir fyrirtækisins á Þingeyri. 

Bæjarráð Norðurþings hefur enn fremur samþykkt að óska eftir viðræðum við eigendur Vísi um kaup á eignum og aflaheimildum þess sem tilheyra Húsavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert