Vísbendingar um aukna hnífanotkun

Hnífur.
Hnífur. AFP

 „Eitthvað hefur aukist að menn gangi með hnífa eða stunguvopn í sínum fórum. En vafalaust er skýringin einnig sú að lögreglumenn veita þessu meiri athygli en áður og leggja hald á fleiri eggvopn af þeim sökum,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hnífamálum fjölgaði um 30 á milli ára 

Í samantekt sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði fyrir mbl.is kemur fram að málum þar sem lagt var hald á hnífa á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 30 á milli áranna 2011 og 2012. Voru málin 82 árið 2012 en 52 árið 2011. Á árunum 2007-2011 var fjöldi mála þar sem lagt var hald á hnífa mestur árið 2007 þegar málin voru 59.

 Hafa ber í huga að ekki liggja fyrir tölur um fjölda mála þar sem hald var lagt á eggvopn árið 2013 og því er fjöldi mála árið 2012 ekki endilega til marks um marktæka aukningu.

Finnast oft við fíkniefnaleit 

Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fengust þær upplýsingar að helst er lagt hald á hníf í kjölfar tilkynningar um þjófnað eða stórfellda líkamsárás. Hnífar eru einnig haldlagðir í tengslum við fíkniefnamál og rán.

Að sögn Friðriks Smára leggur fíkniefnadeild lögreglunnar reglulega hald á hnífa við fíkniefnaleitir. „Oft finnast hnífar þegar við förum í húsleitir í leit að fíkniefnum þó það sé erfitt að finna einhverja eina skýringu frekar en aðra við hvaða aðstæður við leggjum helst hald á eggvopn," segir Friðrik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert