Hefurðu týnt hana/hænu?

Hann er grár og spengilegur. Og líklega er hann hæna. …
Hann er grár og spengilegur. Og líklega er hann hæna. Hvort heldur sem er þá virtist fuglinum vera kalt.

Grár hani, þó líklega hæna, sást á vappi í Grasagarðinum í Laugardalnum í dag. Blaðamaður mbl.is tók mynd af fuglinum og spurðist einnig fyrir um hann hjá starfsmanni Húsdýragarðsins sem kannaðist ekki við að hafa tapað hana. Nú er spurningin, kannast þú við hann? Tekið skal fram að hugsanlega er um hænu að ræða - þó að kamburinn sé nokkuð stór. Kjúklingabóndi sem mbl.is ráðfærði sig við telur þetta þó líklega hana, þó fíngerður sé. Um fyrrverandi kjúklingabónda er að ræða.

Nokkuð svalt var í veðri og snjór á jörðu í Grasagarðinum í dag. Haninn, nú eða hænan, hélt sig að sögn blaðamanns í blómabeði og virtist fremur kalt. Starfsmaður í afgreiðslu Húsdýragarðsins sagðist ekki vita til þess að hana væri saknað úr þeim garði. Ekki var spurt hvort hæna hefði tapast.

Nokkuð margir eru farnir að halda hænur á höfuðborgarsvæðinu og því ekki óhugsandi að hani þessi hafi hreinlega villst að heiman. Ef svo er þá má eigandinn vita að hann er að kroppa gras í beðum Grasagarðsins.

Einn lesandi mbl.is hefur bent á að stundum villist fiðurfé út úr Húsdýragarðinum og inn í Grasagarðinn. Sá hinn sami telur augljóst að um hænu sé að ræða - ekki hana. Það megi m.a. sjá á stéli fuglsins.

Uppfært kl. 21.52:

Annar lesandi mbl.is sem hafði samband tekur undir með þeim fyrri og segir þetta hænu. „Það er búfræðilegt mat mitt að þetta sé hæna. Hani er með meira stél,“ skrifar lesandinn. „En þetta er stór hæna.“

"Haninn" í blómabeðinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert