Útrásarvíkingar hefðu getað lært af Belfort

Jordan Belfort.
Jordan Belfort. mbl.is

„Markmið Yslands er að bjóða upp á viðburð sem hreyfir við áheyrendum. Þess vegna varð Belfort fyrir valinu. Ekki vegna þess að Ysland samþykki það sem hann gerði, heldur vegna þess að við getum svo sannarlega lært af honum,“ skrifar Jón Gunnar Geirdal, landsstjóri Yslands, sem flytur inn hinn umdeilda Jordan Belfort, Úlfinn á Wall Street. 

Í yfirlýsingu frá Jóni Gunnari kemur m.a. fram að margir hafi spurt sig hvers vegna væri verið að flytja inn svo umdeildan mann. Umræðan hafi m.a. verið mikil á samfélagsmiðlum.

„Ef að skilyrði fyrir viðburðahaldi á Íslandi er flekklaus fortíð viðkomandi fyrirlesara eða listamanns þá væri takmarkað framboð af áhugaverðumviðburðum hér á landi – hvort sem væri með innlendum eða erlendum listamönnum,“ skrifar Jón Gunnar. „Miðað við heiftarleg viðbrögð og umræðu á netinu þá er eins gott að gera engin mistök í lífinu meðan sjálfskipaðir siðapostular samfélagsmiðlana tryggja sér vonandi um leið þykkara gler í glerhúsið sitt góða.“

Jón Gunnar segir að þó að Martin Scorsese og Leonardo DiCaprio hafi staðið vel að verki þegar þeir túlkuðu lífshlaup hans að hætti Hollywood í kvikmyndinni Wolf on Wallstreet, megi ekki gleyma að tilgangurinn með myndinni hafi ekki síður verið að segja æsilega sögu.

„Markmið Yslands er að bjóða upp á viðburð sem hreyfir við áheyrendum. Þess vegna varð Belfort fyrir valinu. Ekki vegna þess að Ysland samþykki það sem hann gerði, heldur vegna þess að við getum svo sannarlega lært af honum.“

Ekki sambærilegt við fyrirlestur í Danmörku

Mikið hefur verið rætt um miðaverð á söluráðstefnuna með Belfort. Bent hefur verið á að um 7.000 kr íslenskar kosti á fyrirlestur hans í Danmörku en miðaverðið á söluráðstefnuna í Háskólabíói er 50 þúsund krónur.

„Þessir tveir viðburðir eru einfaldlega ekki sambærilegir og á samanburðurinn því ekki rétt á sér,“ skrifar Jón Gunnar. „Jordan Belfort heldur tveggja tíma fyrirlestur um líf sitt í Danmörku, ekkert annað. Jordan Belfort heldur klukkutíma fyrirlestur á Íslandi og þriggja klukkutíma Straight Line Persuasion sölunámskeið með spurt&svarað. Það er einfaldlega kostnaðarsamari útfærslu af því sem hann hefur upp á að bjóða, nálægð gesta og tenging við hann er mun meiri en stærsti þátturinn auðvitað kennsla á öflugasta sölukerfi sem völ er á þar sem þátttakendur fá grunnþjálfun í því sem þarf til að ná langt í viðskiptum, auk þess að læra sérstaka tækni og aðferðir til að ná árangri í uppbyggingu, stjórnun og vexti.“

Ólöglegt og siðlaust

Árið 1998 var Belfort ákærður fyrir fjársvik og peningaþvætti. Hann lék á kerfið og hafði milljónir dala af hundruðum fjárfesta. „Framferði hans var bæði ólöglegt og siðlaust,“ segir Jón Gunnar. „Öfugt við fjárglæframenn Íslands sem fóru hér hamförum fyrir hrun þá hlaut Jordan Belfort sinn dóm, sat 22 mánuði í fangelsi og var skipað að endurgreiða þeim sem hann hafði svikið yfir 110 milljónir dala. Nú er honum skylt að láta hluta tekna sinna af hendi til að standa skil á skuldum sínum við ríkið og endurgreiðslum til fórnarlamba sinna. Hann lætur allar tekjur sem hann fær af kvikmyndinni, bókum sínum og fyrirlestrum renna til þessa skuldbindinga og fer í einu og öllu eftir úrskurðum dómstóla.“

Jón Gunnar segir sögu Belforts víti til varnaðar. „Ef eitthvað þá hefði Jordan Belfort átt að koma hérna einhverjum árum fyrir hrun og lesa yfir svokölluðum „útrásarvíkingum” sem rændu þjóðina – þeir hefðu allir haft gott af því að læra af þeim mistökum sem hann gerði mörgum árum áður.“

Frétt mbl.is: „Komdu þá ekki að sjá mig“

Jón Gunnar Geirdal, stofnandi og eigandi markaðs- og kynningarfyrirtækisins Ysland …
Jón Gunnar Geirdal, stofnandi og eigandi markaðs- og kynningarfyrirtækisins Ysland stendur fyrir komu Jordans Belforts. Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert