Víða hálkublettir eða hálka

Ökumenn ættu að fara varlega þar sem víða eru hálkublettir.
Ökumenn ættu að fara varlega þar sem víða eru hálkublettir. mbl.is/ÞÖK

Greiðfært er á Suðvesturlandi en hálkublettir eru nokkuð víða á Suðurlandi. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er mikið orðið autt á láglendi en víða eru hálkublettir eða hálka á fjallvegum. Snjóþekja eða hálkublettir eru nokkuð víða í uppsveitum Borgarfjarðar. Snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og norður í Árneshrepp.

Það er víðast orðið autt á Norðurlandi þó er hálka á Þverárfjalli og hálkublettir eru á Vatnsskarði og Siglufjarðarvegi. Austan Eyjafjarðar eru hálkublettir en hálka er þó á Hófaskarði og á Hálsum. Á Mývatnsöræfum er hálka en þæfingur er á Möðrudalsöræfum. Hálkublettir eru á  Vopnafjarðarheið og á Háreksstaðaleið.

Vegir á Austurlandi eru greiðfæri fyrir utan hálkubletti á fjallvegum og snjóþekju á Vatnsskarði eystra. Greiðfært er á Suðausturlandi.

Meðan frost er að fara úr jörð þarf víða að banna allan akstur á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru. Þeir sem hyggja á fjallaferðir eru beðnir að kynna sér ástand á viðkomandi leiðum og virða akstursbann þar sem það er í gildi. 

Vegna aurbleytu og/eða hættu á slitlagsskemmdum þarf sumsstaðar að takmarka ásþunga. Frekari upplýsingar má fá í síma 1777.

Vegna vinnu við endurnýjun á rafkerfum í Múlagöngum má búast við umferðartöfum þar yfir nóttina, frá kl. 21:00 til kl. 06:00 að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert