Gæti haft áhrif á ferð Vilborgar

Hér má sjá gönguleiðina á Everest og staðinn þar sem …
Hér má sjá gönguleiðina á Everest og staðinn þar sem snjóflóðið féll, við Khumbu ísfallið. mbl.is/Elín Esther

Óvíst er hvaða áhrif snjóflóðið sem féll í Everest hefur á þá fyrirætlan Vilborgar Örnu Gissurardóttur að klífa hæsta tind jarðar á næstu vikum. Að sögn Vilborgar sjást afleiðingar flóðsins vel úr grunnbúðunum, sem eru þó ekki í hættu. Ekki er enn vitað hvernig umhorfs er ofar í hlíðunum, þar sem gangan á tindinn hefst.

Símasamband við grunnbúðir er mjög ótryggt sem stendur og þegar mbl.is náði tali af Vilborgu Örnu í dag gat hún lítið talað en sagðist ætla að reyna að láta heyra betur frá sér á morgun. Hún mun jafnframt setja inn færslu á heimasíðu sína, Vilborg.is, um leið og færi gefst.

Þetta er mannskæðasta slys sem orðið hefur í sögu klifurs á Everest-fjall. Fregnir herma að allt að 100 manns hafi orðið fyrir flóðinu og er staðfest að 12 eru látnir en enn er nokkurra saknað. Eftir því sem best er vitað eru hinir látnu allir heimamenn sem störfuðu við leiðsögn og lögðu af stað á undan erlendu göngufólki til þess að undirbúa leiðina fyrir daginn.

Dauðsföll tíð á Everest

Flóðið féll ofan við Khumbu-ísfallið, um 500 metrum ofar í fjallinu en grunnbúðir. Þetta er þekkt snjóflóðasvæði og raunar féll snjóflóð á sjálfar grunnbúðirnar árið 2010. Nokkrir slösuðust í því flóði en enginn lést.

Mesta mannfall í einum leiðangri á Everest til þess var árið 1996 þegar átta göngumenn létust í leiðangri sem síðar var skrifað um í bókinni Into Thin Air. Árið 1922 dóu sjö sjerpar á fjallinu þegar þeir lentu í snjóflóði.

Alls er vitað til þess að 86 sjerpar hafi látið lífið í hlíðum Everest frá árinu 1922. Þar af létust 27 í snjóflóðum. Á öllu síðasta ári létu átta göngumenn lífið á Everest, en flest dauðsföll á einu tímabili voru árið 1996, þegar 15 létust beggja vegna fjallsins við að reyna að ná á tindinn.

Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest.
Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Vilborg Arna
Göngugarpar nálgast tind Everest.
Göngugarpar nálgast tind Everest. AFP
Everest rís úr Himalaya fjöllum í 8.848 metra hæð.
Everest rís úr Himalaya fjöllum í 8.848 metra hæð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert