Ófært og óveður á Öxnadalsheiði

Ófært er á Öxnadalsheiði.
Ófært er á Öxnadalsheiði. mbl.is/Helgi Bjarnason

Ófært og óveður eru nú á Öxnadalsheiði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Víkurskarði. Að öðru leyti eru flestir vegir greiðfærir á láglendi á Norðurlandi, en þó hálka og hálkublettir í Húnavatnssýslum. Á Þverárfjalli eru sömuleiðis hálkublettir og éljagangur. Snjóþeka, þæfingsfærð og skafrenningur eru í víkurskarði, hálkublettir á Fljótsheiði, Hólasandi og Sandvíkurheiði.

Ófært er Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Vopnafjarðarheiði.

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Hálkublettir eru Í Þrengslum og sumstaðar í uppsveitum á Suðurlandi.

Á Vesturlandi eru hálkublettir í Borgarfirði. Hálkublettir og éljagangur er á Fróðárheiði og í Búlandshöfða. Hálka og óveður er á Holtavörðuheiði og hálkublettir og óveður á Laxárdalsheiði. Snjóþekja er á Bröttubrekku.

Snjóþekja eða hálkublettir eru á flestum þeim leiðum á Vestfjörðum sem búið er að skoða. Snjóþekja og óveður er á Hálfdán og Mikladal. Ófært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði en þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum. Hálkublettir eru á Innstrandarvegi og skafrenningur á Ennisháls.

Vegir á Austurlandi eru víða greiðfærir. Þó er hálka og skafrenningur á Fjarðarheiði og hálkublettir á Vatnsskarði eystra, Fagradal og  á Oddsskarði.

Greiðfært er á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert