Skíðasvæðið lokað í skíðaviku

Skíðasvæðið á Ísafirði verður lokað í dag vegna storms sem gengur yfir Vestfirði. Forstöðumaður skíðasvæðisins, Gautur Ívar Halldórsson, segir afar ólíklegt að náist að opna svæðið í dag, en náið verður fylgst með veðrinu.

Hin árlega skíðavika á Ísafirði stendur nú sem hæst og mikil dagskrá skipulögð um helgina. Í dag átti m.a. að vera furðufatadagur á skíðasvæðinu, en löng hefð er fyrir því hjá mörgum fjölskyldum að fara saman á skíði í Tungudal á föstudaginn langa og var fólk hvatt til að mæta uppáklætt.

Að sögn Gauts verða starfsmenn á vaktinni í dag og ef aðstæður breytast eitthvað verður brugðist við því. Sem stendur standa hviður hinsvegar í 18 m/s bæði á efra og neðra skíðasvæði. Hiti er 0°C og úrkoma.

Lokað í Hlíðarfjalli en opið í Oddsskarði og Stafdal

Veðrið er heldur ekki vænlegt til skíðaiðkunar í Hlíðarfjalli á Akureyri, og eru litlar líkur á að svæðið þar verði opnað í dag að sögn Ómars Ingimarssonar starfsmanns. „Sterkir háloftavindar úr suðvestri eru að gera okkur lífið leitt g það er ekki útlit fyrir að þeir muni ganga niður. Við ætlum þó að halda þessu opnu til hádegis, en biðjum fólk að bíða ekki í skíðagallanum mikið lengur en það,“ segir Ómar.

Heimasíða Hlíðarfjalls, símsvari og facebooksíðan verða uppfærð næst kl. 10. Ef útlitið verður ekki bjartara verður beðið til kl. 12 með endanlega ákvörðun.

Skíðasvæðið í Oddsskarði verður hins vegar opnað kl. 10 í dag samkvæmt upplýsingum frá Skíðamiðstöð Austurlands. Þar er vindur 5 m/s, 3°C hiti og sól. Svæðið verður opið til kl. 17.

Í Stafdal á Seyðisfirði verður einnig opið frá kl. 10 til 16 í dag, í sól og vestangolu. Í kvöld er sk. fullorðinskvöld í Stafdal og verður skíðasvæðið opið frá 20 til 23 með tónlist og „aprés ski“-stemningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert